Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Athugasemd vegna umfjöllunar um mönnun í apótekum

Lyfjastofnun ber ábyrgð á eftirliti með apótekum og þar með að mönnun sé í samræmi við ákvæði lyfjalaga. Hermt hefur verið í fjölmiðlum að velferðarráðhera veiti undanþágur frá ákvæðum laga um mönnun. Hið rétta er að einungis Lyfjastofnun getur veitt slíkar undanþágur. 

Í maí 2008 samþykkti Alþingi breytingu á lyfjalögum nr. 97/2008 sem fól meðal annars í sér að veiting á leyfum til lyfjasölu var færð frá heilbrigðisráðuneytinu til Lyfjastofnunar. Samkvæmt gildandi lögum hafa leyfi til lyfjasölu þeir einir sem til þess hafa hlotið leyfi stofnunarinnar.

Varðandi mönnun apóteka segir í 31. gr. lyfjalaga að ekki færri en tveir lyfjafræðingar skuli að jafnaði vera við störf á almennum afgreiðslutíma og á álagstímum utan almenns afgreiðslutíma. Samkvæmt lögunum er Lyfjastofnun þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði og heimila samkvæmt ákveðnum skilyrðum að í apóteki starfi aðeins einn lyfjafræðingur.

Lyfjafræðingafélag Íslands (LFÍ) sendi frá sér tilkynningu í gær þar sem ranglega er sagt að að velferðarráðherra geti veitt apóteki undanþágu frá ákvæði lyfjalaga um mönnun apóteka. Vísað er til þess að árið 2010 hafi apótekum á Íslandi fjölgað um þrjú á sama tíma og lyfjafræðingum í hverju apóteki hafi fækkað. Jafnframt segir í tilkynningunni: „Í ljósi þess að fjöldi alvarlegra mistaka í afgreiðslu lyfja tvöfaldaðist milli áranna 2009 og 2010, telur LFÍ fulla ástæðu til þess að skoða og meta þær undanþágur sem veittar hafa verið frá kröfum um fjölda lyfjafræðinga í hverju apóteki á hverjum tíma.“

Það skal ítrekað að velferðarráðherra veitir ekki undanþágur af þessu tagi. Velferðarráðuneytið telur það alvarlegt ef mönnun í apótekum uppfyllir ekki ákvæði lyfjalaga og mun taka málið upp við Lyfjastofnun.

 

 

 

 

.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum