Hoppa yfir valmynd
2. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fjölmenni á ráðstefnu um heilsueflandi skóla

Embættis landlæknis
Embættis landlæknis

Hátt í þrjúhundruð gestir sóttu árlega ráðstefnu embættis landlæknis um heilsueflandi skóla sem nú stendur yfir á Grand Hóteli í Reykjavík. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra setti ráðstefnuna og ávarpaði gesti við upphaf hennar í morgun.

Ráðherra lagði áherslu á þann ávinning sem felst í almennri ástundun fólks til heilsueflingar á öllum aldri. „Því fyrr á lífsleiðinni sem við tileinkum okkur hana, því betra. Einmitt þess vegna er heilsuefling í skólum verkefni sem við eigum að leggja við mikla rækt og flétta inn í allt skólastarf á öllum skólastigum.“

Ráðherra rifjaði upp slagorðið Heilsuefling hefst hjá þér sem hlyti að hitta flesta fyrir og vekja til umhugsunar um eigin ábyrgð á heilsu sinni og vellíðan:

„Við getum hvenær sem er á ævinni hafið heilsueflingu með því að breyta venjum okkar og taka upp betri siði en við höfum ástundað í gegnum tíðina. Það er hins vegar auðveldara að beygja líkamann en viljann, sérstaklega þegar við erum farin að festast í viðjum vanans eins og gerist með aldrinum.

Við getum á öllum aldri tekið ákvörðun um að ráðast gegn aukakílóunum, hætta að reykja, hætta að drekka, byrja að hreyfa okkur reglulega og huga að geðheilsunni svo eitthvað sé nefnt. Allt getur þetta hins vegar kostað mikið átak og erfiði, - hatramma glímu milli viljans og vanans þar sem oft er tvísýnt um úrslitin.

Best er að tileinka sér heilbrigða lífshætti frá fyrstu tíð og gera þá sjálfsagða í daglegu lífi. Þannig má sleppa við erfiðar rimmur gegn vondum vana síðar meir.

Á þessu byggist hugmyndin um heilsueflandi skóla. Að sjálfsögðu gegna foreldrar alltaf meginhlutverki í uppeldi og mótun barna sinna sem nánasta fyrirmynd þeirra. Skólinn getur hins vegar verið mikilvægur stuðningur og viðbót í þessum efnum með því að sinna þessum þáttum á markvissan hátt og viðvarandi í öllu skólastarfi.“

Ráðherra benti á að heilsuefling snýst um miklu víðara svið en forvarnir og heilbrigðisþjónustu. Heilsuefling sé ekki tímabundið átaksverkefni heldur felist í því að því að efla möguleika og getu einstaklinga til þess að taka þær ákvarðanir sem leiða til heilbrigðis og vellíðunar: „Til þess þarf stuðning og hvatningu í samfélaginu, alls staðar sem því verður við komið og mikilvægt er að móta umhverfi og aðstæður með möguleika fólks til heilsueflingar að leiðarljósi. Skipulagsmál má nefna sem einn þátt af mörgum sem geta ýtt undir heilsueflingu eða unnið gegn henni, allt eftir því hvernig á málum er haldið.“

Allt starf sem snýr að forvörnum og bættri lýðheilsu skilar miklu til samfélagsins, einkum til lengri tíma litið. Þess vegna legg ég áherslu á að við búum vel að slíku starfi og hvetjum til víðtækrar þátttöku fagfólks og leikmanna. Velferðarráðuneytið leikur hér stórt hlutverk og embætti landlæknis sömuleiðis.

Ávarp ráðherra

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum