Hoppa yfir valmynd
8. september 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Samkeppniseftirlitið vísar frá kæru tannlæknis

Samkeppniseftirlitið hefur vísað frá kæru tannlæknis á hendur velferðarráðuneytinu og fleiri aðilum þar sem hann bar þeim á brýn að hafa staðið fyrir ólöglegri samkeppni með því að efna til átaks í tannlækningum fyrir börn tekjulágra. 

Velferðarráðuneytið efndi í vor til tímabundins átaks í tannlækningum fyrir börn þar sem börnum tekjulágra foreldra var boðin endurgjaldslaus tannlæknaþjónusta. Sett var reglugerð um verkefnið með stoð í lögum um sjúkratryggingar og lög um félagslega aðstoð. Tannlæknadeild Háskóla Íslands tók þátt í verkefninu; lagði til húsnæði og aðstöðu og sá um að ráða tannlækna og aðstoðarfólk.

Tannlæknirinn sendi erindi til Samkeppniseftirlitsins í lok maí síðastliðinn þar sem hann kærði velferðarráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins, Sjúkratryggingar Íslands og Tannlæknadeild Háskóla Íslands fyrir að auglýsa tannlækningar sem hann sagði skerða samkeppni, skaða rekstur hans með ólöglegri samkeppni, auk þess að kynna verkefnið ólöglega sem „ókeypis“ tannlækningar.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins

Í svari Samkeppniseftirlitsins til kæranda er vísað til umsagnar velferðarráðuneytisins þar sem meðal annars kemur fram að dómafordæmi séu fyrir því að telja lög um heilbrigðisþjónustu hafa að geyma fyrirmæli sem gangi framar ákvæðum samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið bendir einnig á að samkvæmt lögum skuli það taka afstöðu til þess hvort erindi gefi nægar ástæður til rannsóknar. Mikilvægt sé að stofnuninni sé kleift að sinna fyrst og fremst þeim verkefnum sem brýnust þykja hverju sinni. 

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að ekki sé ástæða til að aðhafast frekar í málinu en ekki er að öðru leyti tekin efnisleg afstaða til málsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum