Hoppa yfir valmynd
27. september 2011 Innviðaráðuneytið

Ný skýrsla um úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda á Norðurlöndunum

Althingi - inngangur
Alþingishúsið, inngangur

Úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda eru að mörgu leyti sambærileg á Norðurlöndunum en útfærslur á framkvæmd eru nokkuð mismunandi. Í nýrri skýrslu Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra til Alþingis er gerð grein fyrir úrræðum fyrir skuldara í hverju landanna fyrir sig.

Skýrslan er gerð að beiðni þingmannanna Róberts Marshall, Ólafs Þórs Gunnarssonar, Þórs Saari, Birgis Ármannssonar, Vigdísar Hauksdóttur, Þráins Bertelssonar, Valgerðar Bjarnadóttur, Árna Þórs Sigurðssonar, Atla Gíslasonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar.

Alls staðar bjóða fjármálastofnanir viðskiptavinum almenn úrræði vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika, svo sem frystingu lána og lengingu lánstíma, auk fjármálaráðgjafar. Einnig er veitt símaráðgjöf fyrir skuldara á landsvísu. 

Aðkoma sveitarfélaga

Í Finnlandi geta skuldarar átt kost á félagslegu láni frá sveitarfélagi og einnig sérstöku skuldbreytingaláni þar sem opinber stofnun gengst í ábyrgð. Markmiðið er að lækka greiðslubyrði skuldarans og getur lánstíminn verið allt að átta ár.

Í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð er áhersla lögð á þjónustu fjármála- og skuldaráðgjafa sem starfa hjá sveitarfélögunum. Skipulagðri fjármálaráðgjöf á ábyrgð sveitarfélaga var komið á í Noregi árið 1993 og er öllum sveitarfélögum skylt að bjóða slíka ráðgjöf. Kannanir benda til að mikill fjöldi skuldara nái samningum við kröfuhafa með aðkomu ráðgjafarþjónustunnar.

Á Íslandi hefur skipulögð fjármálaráðgjöf verið veitt almenningi frá árinu 1996. Í 15 ár var þjónustan á vegum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem var samvinnuverkefni félagsmálaráðuneytisins, sveitarfélaga, fjármálafyrirtækja, Íbúðalánasjóðs og margra annarra aðila. Síðar tók umboðsmaður skuldara við þessu hlutverki, samhliða öðrum verkefnum samkvæmt lögum um embættið.

Greiðsluaðlögun lögbundið úrræði hjá öllum Norðurlandaþjóðunum

Alls staðar á Norðurlöndunum geta þeir sem komnir eru í alvarlega greiðsluerfiðleika sótt um greiðsluaðlögun og er úrræðið bundið í lög, líkt og hér á landi samkvæmt lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Munur er milli landanna á því hver fer með ákvörðunarvald í greiðsluaðlögunarmálum. Í Svíþjóð er það í höndum Kronfogden sem er ríkisstofnun. Á hennar vegum starfa fimm skrifstofur á sviði greiðsluaðlögunar og eru þær dreifðar um landið. Kronfogden vinnur úr umsóknum um greiðsluaðlögun og fer með ákvörðunarvald.

Í Noregi fara rúmlega 400 fógetaembætti landsins með umsóknir um greiðsluaðlögun en í Danmörku og Finnlandi er þetta verkefni á höndum dómstóla. Embætti umboðsmanns skuldara sem starfar hér á landi á sér hvergi hliðstæðu annars staðar á Norðurlöndunum. Eitt stærsta verkefni embættisins er móttaka og úrvinnsla umsókna um greiðsluaðlögun og einnig veitir embættið fólki aðstoð við gerð umsókna ef þess er óskað.

Alls staðar á Norðurlöndunum er sett það skilyrði fyrir greiðsluaðlögun að umsækjandi hafi lögheimili í því landi sem sótt er um. Í flestum tilfellum geta einstaklingar í rekstri ekki fengið samþykkta greiðsluaðlögun nema að mjög takmörkuðu leyti. Öðru máli gegnir hafi einstaklingar hætt rekstri á fyrirtæki í eigin nafni en bera engu að síður ábyrgð á skuldum þess.

Lög um greiðsluaðlögun voru nýlega endurskoðuð í Svíþjóð og var þá réttur einstaklinga í atvinnurekstri til greiðsluaðlögunar rýmkaður.

Reynsla nágrannaþjóða nýtist Íslendingum

Víðast á Norðurlöndunum er komin löng reynsla af greiðsluaðlögun en löggjöf um þetta úrræði er í stöðugri þróun. Svipuð vandamál hafa komið upp við beitingu úrræðisins og hér á landi. Umsóknarferlið hefur þótt flókið, afgreiðsla mála hefur tekið langan tíma, upp hafa komið vandkvæði gagnvart opinberum kröfuhöfum og gagnrýnt hefur verið að fjárhæð sem innheimt hefur verið af skuldurum hefur ekki tekið mið af því ef breytingar hafa orðið á tekjum þeirra.

Eins og áður sagði tóku nýlega gildi í Svíþjóð nýendurskoðuð lög um greiðsluaðlögun og í Finnlandi liggja fyrir tillögur frá því í mars síðastliðnum um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun. Í Noregi voru lögin endurskoðuð árið 2002 en nú er unnið að nýrri endurskoðun þar sem meðal annars er gert ráð fyrir aukinni miðstýringu við úrvinnslu umsókna.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir augljóst að reynsla annarra Norðurlandaþjóða af greiðsluaðlögun nýtist okkur og að höfð verði hliðsjón af þeim breytingum sem þar hafa þegar verið gerðar á lögum um greiðsluaðlögun eða stefnt er að því að gera. Hann segir einnig athyglisvert að skoða aðstæður þeirra sem farið hafa í greiðsluaðlögun og ástæður fyrir því að sótt er um, en þessar upplýsingar eru tilgreindar í skýrslunni hjá þeim þjóðum sem hafa þær upplýsingar haldbærar. Í Noregi var til dæmis helsta ástæða greiðsluaðlögunar í byrjun tíunda áratugarins aukið atvinnuleysi ásamt lækkandi fasteignaverði. Árið 2011 eru helstu ástæðurnar hins vegar veikindi, skuldir sem komið hafa til í tengslum við atvinnurekstur og ofnotkun ýmissa fjármögnunarmöguleika, svo sem greiðslukorta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum