Hoppa yfir valmynd
21. október 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Verulega hefur dregið úr ávísun ofvirknilyfja til fullorðinna

Eftir stöðuga aukningu á notkun metýlfenidat-lyfja frá árinu 2006, einkum meðal fullorðinna, hefur tekist að snúa þróuninni við með markvissum aðgerðum heilbrigðisyfirvalda. Mest hefur dregið úr ávísunum þessara lyfja til fólks 20 ára og eldra, en einnig hefur dregið úr þeim til einstaklinga yngri en 20 ára, sérstaklega hjá börnum á aldrinum 0-9 ára.*

Metylfenidat-27.10.2011

Þær breytingar sem orðið hafa á notkun metýlfenidat-lyfja má rekja til aðgerða sem gripið var til um síðustu áramót og vinnu viðbragðshóps sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra setti á fót í sumar. Um áramótin tóku gildi nýjar reglur um útgáfu lyfjaskírteina til að koma í veg fyrir að einstaklingar gætu fengið ávísun á þessi lyf frá mörgum læknum og eftirlit embættis landlæknis með ávísunum metýlfenidat-lyfja var aukið. 

Viðbragðshópi velferðarráðherra var falið að gera tillögur til að draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir misnotkun lyfja sem innihalda metýlfenidat og annarra lyfseðilskyldra lyfja sem sýnt þætti að væru notuð til sölu og dreifingar meðal sprautufíkla á Íslandi. Hópurinn kynnti ráðherra tillögur sínar 10. júní og var ákveðið að hrinda þeim í framkvæmd án tafar. Þetta voru einkum aðgerðir sem snúa að auknu eftirliti, skráningu upplýsinga og aðgengi að þeim, takmörkun á aðgengi þessara lyfja og bráðaúrræði á meðferðarstofnunum.

 Viðbragðshópurinn hélt nýlega stöðufund þar sem árangur aðgerðanna var metinn og reifaðar tillögur sem gætu stemmt enn frekar stigu við misnotkun metýlfenidat-lyfja.

Á fundinum voru kynntar ýmsar aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að fylgja eftir tillögum viðbragðshópsins og eru hér taldar nokkrar þeirra:

  • Áður en Sjúkratryggingar Íslands gefa út lyfjaskírteini er farið yfir notkun fullorðinna á metýlfenidat-lyfjum og verkja-, róandi og kvíðastillandi lyfjum. Leiki grunur á misnotkun er embætti landlæknis gert viðvart.
  • Lyfjaeftirlit á vegum embættis landlæknis hefur verið endurskipulagt og eflt til muna og samstarf þess við aðrar stofnanir í heilbrigðiskerfinu og við lögregluna aukið. Aukin áhersla er á samstarf við Lyfjastofnun vegna mála þegar grunur leikur á að lyfseðlar séu falsaðir, hafi verið stolið eða ef skammtar á lyfseðlum þykja óeðlilega háir.
  • Eftirlitshandbók um lyfjagagnagrunn embættis landlæknis hefur verið endurskoðuð með áherslu á lyf sem misnotuð eru af sprautufíklum og til þess að skerpa á reglubundnu eftirliti embættisins með ávanabindandi lyfjum.
  • Embætti landlæknis hefur haft samband við fjölda lækna vegna ávísana á ávanabindandi lyf til einstaklinga sem ljóst er að hafa samtímis orðið sér úti um slík lyf hjá öðrum læknum samkvæmt upplýsingum úr lyfjagagnagrunni. Embættið sinnir reglubundnu eftirliti með málum sem þessu og hefur samband við lækna eftir því sem efni standa til.
  • Átak hefur verið gert til þess að kynna læknum lyfjagagnagrunn embættis landlæknis og hvetja þá til þess að nýti sér hann í daglegum störfum. Kynningum á grunninum verður haldið áfram á næstunni.
  • Í velferðarráðuneytinu og hjá embætti landlæknis er unnið að breytingum sem munu tryggja læknum rafrænan aðgang að lyfjasögu sjúklinga sinna.

 * Athugasemd ráðuneytisins: Gerð hefur verið leiðrétting á fréttinni (27.10.2011) þar sem áður var ranglega sagt að auk mun minni ávísana til fullorðinna hefði einkum dregið úr ávísunum til barna 10-14 ára. Rétt er að dregið hefur úr ávísunum til barna á aldrinum 0-9 ára. Línurit með fréttinni hefur verið leiðrétt til samræmis við þetta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum