Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti

Gott fólk.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraVið höldum nú dag gegn einelti sem er 8. nóvember. Ég vona þessi dagur hljóti verðskuldaða athygli og veki fólk til umhugsunar. Þetta er þó ekki eins dags málefni heldur mál sem við þurfum öll að vera vakandi fyrir alla daga, alltaf. Einelti getur haft skelfilegar afleiðingar, það er niðurbrjótandi og skemmandi og má aldrei líðast í samfélaginu. Einelti er dauðans alvara.

Einelti birtist í ýmsum myndum og því miður alls staðar í samfélaginu. Það er sérstaklega alvarlegt þegar börn standa frammi fyrir slíku og skólarnir þurfa að vinna markvisst gegn því að það skjóti rótum í samskiptum nemenda. Ekki aðeins með því að vernda þau börn sem verða fyrir einelti heldur með aðgerðum sem miða að því uppræta slíka hegðun hjá gerendunum. Við þurfum að skapa það umhverfi sem styður jákvæð samskipti byggð á gagkvæmri virðingu, trausti, umhyggju og nærgætni.

Einelti þarf ákveðinn jarðveg til að þrífast. Í hópi þar sem því er beitt eru jafnan einhverjir viðhlægjendur þótt þeir taki ekki beinan þátt, aðrir horfa fram hjá því og samþykkja það þannig á vissan hátt með þögninni eða afskiptaleysinu. Þessu þurfum við að breyta og það er vel hægt því allt snýst þetta um viðhorf. Við eigum að ræða þessi mál opinskátt þannig að öllum verði ljóst hver dauðans alvara einelti er og að þar berum við öll ábyrgð.

Ég vona að sem allra flestir skrifi undir þjóðarsáttmálann um baráttu gegn einelti, velti þessum málum fyrir sér, hugleiði ábyrgð sína og hvað þeir geti lagt af mörkum til þess að stuðla að jákvæðum og uppbyggilegum samskiptum þar sem einelti fær ekki þrifist.

Við viljum litríkan heim, fjölbreyttan en ekki svartan og hvítan.

Tökum höndum saman í baráttunni gegn einelti.

Þjóðarsáttmáli gegn einelti gefur skýr skilaboð.


Á heimasíðunni: www.gegneinelti.is gefst fólki kostur á að undirrita sáttmálann.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum