Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Villandi umfjöllun um frumvarp um breytta greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Ríkisútvarpið birti í gær frétt sem gaf til kynna að kostnaður sjúklings vegna krabbameinsmeðferðar muni hækka um 170.000 krónur verði frumvarp til breytinga á greiðsluþátttöku sjúklinga vegna lyfjakostnaðar að lögum. Þetta er alrangt. Það er mjög alvarlegt þegar fjölmiðill birtir rangar eða villandi upplýsingar um mikilvæga hagsmuni almennings. Upphafsorð fréttar RÚV voru svohljóðandi: ,,Dæmi eru um að sjúklingar hafa þurft að greiða tæpar 200 þúsund krónur fyrir spítalameðferð við brjóstakrabbameini. Sé endurhæfing og lyfjakostnaður samkvæmt nýju frumvarpi tekinn með er kostnaður sjúklings nærri 370 þúsund krónur.“

Frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi hefur ekkert með endurhæfingu að gera. Áhrif þess á kostnað sjúklingsins í dæmi RÚV snúa eingöngu að lyfjakostnaði hans, annað er óbreytt, þvert á það sem skilja mátti af frétt RÚV. Eyjan birti frétt og vísaði í RÚV þar sem segir meðal annars: ,,Sjúklingar hafa þurft að greiða allt að 200 þúsund krónum fyrir spítalameðferð við brjóstakrabbameini. Samkvæmt frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram um þátttöku sjúklinga í lyfja- og endurhæfingarkostnaði gæti kostnaðurinn hækkað upp í 370.000 krónur.“

Það er rétt að krabbameinssjúklingar þurfa ekki að greiða fyrir krabbameinslyf í núgildandi kerfi. Þeir geta hins vegar þurft að mæta kostnaði vegna annarra lyfja líkt og aðrir og verða því á sama hátt varðir gegn háum lyfjakostnaði verði frumvarpið að lögum.

Tekið skal sérstaklega fram að öll S-merkt lyf verða áfram sjúklingum að kostnaðarlausu samkvæmt frumvarpinu en þar með talin eru ýmis krabbameinslyf. Í frétt RÚV er ekki getið um þessar staðreyndir sem skipta verulegu máli þegar reynt er að varpa ljósi á raunverulegan lyfjakostnað fólks samkvæmt frumvarpinu.

Raunveruleg áhrif frumvarpsins á útgjöld í umræddu dæmi

Frumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi hefur þann tilgang helstan að verja sjúklinga fyrir háum lyfjakostnaði en gildandi lög gera það ekki. Kostnaður ríkissjóðs vegna niðurgreiðslna á lyfjum mun haldast óbreyttur, enda er markmið breytinganna að jafna lyfjakostnað, ekki að spara útgjöld.

Miðað er við að samanlögð útgjöld einstaklings á 12 mánaða tímabili verði ekki hærri en tæpar 65.000 krónur, en um 45.000 krónur ef í hlut eiga elli- og örorkulífeyrisþegar, börn eða atvinnulausir (sjá töflur hér að neðan). Þessar fjárhæðir eru samkvæmt drögum að reglugerð sem fylgja frumvarpinu og eru tölurnar miðaðar við magn- og kostnaðartölur ársins 2010

Þegar þessum hámörkum er náð er gert ráð fyrir útgáfu lyfjaskírteina og þar með verða þau lyf sem fólk þarf á að halda það sem eftir er 12 mánaða tímabilsins niðurgreidd að fullu. Kostnaður sjúklingsins í dæmi RÚV vegna lyfja í nýju kerfi gæti samkvæmt þessu að hámarki orðið 65.000 krónur á ári, sbr. meðfylgjandi töflur hér að neðan

Dæmi þar sem lyfjakostnaður lækkar um 125.000 krónur á ári

Í núgildandi lyfjagreiðslukerfi bera þeir jafnan mesta kostnaðinn sem eru oft veikir, nota lyf að staðaldri eða þurfa tímabundið á mjög dýrum lyfjum að halda. Markmið frumvarpsins er að jafna byrðarnar, auka greiðsluþátttöku hins opinbera hjá þeim sem nú greiða mest en draga úr henni hjá því fólki sem þarf lítið á lyfjum að halda. Eins verður hætt að mismuna sjúklingum eftir því hvaða sjúkdóma þeir eiga við að etja þar sem kveðið er á um fulla niðurgreiðslu vegna tiltekinna lyfja en ekki vegna annarra. Þetta hefur oft verið gagnrýnt enda í mörgum tilvikum afar erfitt að sjá sanngirnina í þessu fyrirkomulagi.  

Velferðarráðuneytið fékk upplýsingar um lyfjanotkun og lyfjakostnað öryrkja sem er hjartasjúklingur og greiðir í núgildandi kerfi um 170.000 krónur á ári. Í nýju kerfi verður kostnaður hans 45.000 krónur fyrir sömu lyfjanotkun og lækkar þannig um 125.000 krónur á ári.

Sjúklingur greiðir 15% af verði lyfs, þvínæst 7,5% og loks ekkert

Samkvæmt fyrirhuguðum breytingum á greiðsluþátttökukerfinu þarf fólk almennt að greiða að fullu fyrir lyf sem keypt eru á 12 mánaða tímabili fari samanlagður kostnaður ekki yfir 22.500 krónur. Hjá elli- og örorkulífeyrisþegum, börnum og þeim sem eru á atvinnuleysisskrá er hámarkið lægra, eða um 15.000 krónur. Kaupi fólk lyf í apóteki eftir að þessum hámarksfjárhæðum er náð greiðir það einungis 15% af verði þeirra á móti 85% niðurgreiðslu sjúkratrygginga. Í næsta þrepi fer greiðir fólk aðeins 7,5% af verði lyfs eins og sést á meðfylgjandi töflu og þegar hámarkskostnaði er náð og fólk fær lyfjaskírteini greiðir það ekkert fyrir þau lyf sem keypt eru á umræddu viðmiðunartímabili.

 

Tafla 1. Almennur notandi
Þrep Hlutur sjúklings Kostnaður sjúklings í (kr.) Hlutur SÍ Heildarsöluverðmæti lyfjanna.
1  100% 0 – 22,500 0% 0
2 15%  22,501 – 32,625 85%  22,501 – 90,000
3 7,5%  32,626 – 64,875 92,5%  90,001 – 520,000
Lyfjaskírteini 0,0% 0 100% 520,001 +

 

Tafla 2. Elli- og örorkulífeyrisþegar atvinnulausir og börn
Þrep Hlutur sjúklings Kostnaður sjúklings (kr.)   Heildarsöluverðmæti lyfjanna
1  100% 0 – 15,000 0% 0
2 15%  15,001 –  21,750 85%  15,001–  60,000
3 7,5%  21,751 – 45,000 92,5%  60,001–  370,000
Lyfjaskírteini 0,0% 0 100%  370,001 +

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum