Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Úthlutun styrkja til gæðaverkefna í velferðarþjónustu

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ákveðið að veita gæðastyrki til átta verkefna í velferðarþjónustu sem tengjast samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu og stuðla að umbótastarfi, nýbreytni eða auknum gæðum þjónustunnar. Styrkirnir nema samtals 2,4 milljónum króna. 

Gæðastyrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 2001 en þeir eru fyrst og fremst hugsaðar til hvatningar og viðurkenningar.

Frestur til að sækja um styrki rann út 16. desember síðastliðinn. Alls barst 61 umsókn um styrki hvaðanæva af landinu. Sótt var um vegna fjölbreyttra verkefna og tengdist rúmlega þriðjungur þeirra samþættingu heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Úthlutunarnefnd skipuð þremur fulltrúum velferðarráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingarnar til verkefnanna átta. Styrkirnir nema á bilinu 200-400 þúsund krónum.

Veittir voru styrkir til verkefnis um heilsueflandi heimsóknir til aldraðra í Hveragerði, samstarfsverkefnis heilbrigðis- og félagsþjónustu á Héraði um áfengisvarnir, mat á árangri samþættrar heimahjúkrunar og félagsþjónustu í Kópavogi, úttektar á fagráði um heilsuvernd á Akureyri, þróunar- og reynsluverkefnis um samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu í Skagafirði, verkefnis um samþættingu heimaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði, um innleiðingu samþættrar og notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar í heimahjúkrun í Norðurþingi og loks verkefnis um innleiðingu matskerfisins RAI-HC í heimaþjónustu og árangursmælinga við Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum