Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Ákvörðun um brottnám allra PIP brjóstafyllinga

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Tillaga velferðarráðherra um að bjóða öllum konum sem fengið hafa ígræddar PIP brjóstafyllingar hér á landi að þær verði numdar brott með aðgerð á vegum Landspítala var samþykkt á fundi ríkisstjórnar í dag. Ákvörðunin er tekin í samræmi við faglegt mat embættis landlæknis. 

Fyrri ákvörðun um að konum með PIP brjóstafyllingar verði boðin ómskoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands stendur óbreytt enda mun hún nýtast til að forgangsraða konum í aðgerð vegna brottnáms fyllinganna kjósi þær það. Er miðað við að þær konur njóti forgangs sem finna til einkenna vegna lekra púða eins og fram kemur í erindi embættis landlæknis til ráðuneytisins vegna málsins.

Framkvæmd brottnámsaðgerða

Allar aðgerðir vegna brottnáms PIP brjóstapúða samkvæmt boði stjórnvalda verða framkvæmdar á vegum Landspítala. Samkomulag er milli velferðarráðuneytisins og spítalans um að þær annist einungis læknar sem eru í fullu starfi á sjúkrahúsinu og ekki með sjálfstæðan stofurekstur.

Ísetning nýrra brjóstapúða verður ekki framkvæmd í aðgerð vegna brottnáms PIP brjóstafyllinga á vegum Landspítala. Er hér byggt á þeim faglegu rökum að brottnám PIP fyllinganna sé konunum skaðminna en brottnám eftir að leki kemur í ljós. Brottnámsaðgerðin feli í sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu en ísetning nýrra púða telst fegrunaraðgerð. Konur sem kjósa ísetningu nýrra brjóstafyllinga í stað þeirra gömlu greiða sjálfar allan kostnað sem af því hlýst. Ísetning nýrra púða getur aðeins farið fram utan hins opinbera heilbrigðiskerfis.

Landspítalinn áætlar að unnt veðri að fjarlægja PIP brjóstafyllingar úr konum sem þangað leita innan sex mánaða.

Áætlaður kostnaður

Áætlaður kostnaður ríkisins vegna brottnáms PIP brjóstafyllinga er á bilinu 90 – 150 milljónir króna. Breytileiki kostnaðarins ræðst af umfangi einstakra aðgerða og því hve margar konur nýta sér boð stjórnvalda. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru um 400 konur sem hafa fengið ígræddar PIP brjóstafyllingar hér á landi á árunum 2000-2010. Ætla má að fyllingarnar hafi þegar verið fjarlægðar úr hluta þeirra, einhverjar þeirra séu ekki sjúkratryggðar hér á landi og greiði því sjálfar kostnað vegna aðgerða að fullu og eins er óvíst hvort allar kvennanna muni nýta sér boð stjórnvalda þótt þær eigi rétt á því.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum