Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Verðlækkun nokkurra lyfja sem hefur áhrif á greiðsluþátttöku sjúkratrygginga

Lyfjamál
Lyfjamál

Vegna mikillar verðlækkunar á blóðþrýstingslyfinu Enalpril frá Lyfis 1. mars munu nokkur algeng blóðþrýstingslyf sem nú eru með almennri greiðsluþátttöku sjúkratrygginga falla út fyrir þann ramma sem greiðsluþátttakan miðast við. Sama máli gegnir um tiltekin magasýrulyf (prótónpumpuhemla). Til að tryggja greiðsluþátttöku sjúkratrygginga þurfa læknar að sækja um lyfjaskírteini fyrir sjúklinga sem þurfa á umræddum lyfjum að halda.

Verðlækkunin lækkar útgjöld ríkisins og kemur jafnframt til góða sjúklingum sem nota þær tegundir lyfja sem lækka í verði. Lækkunin á Enalpril nemur á bilinu 28–40% eftir stærð pakkninga. Blóðþrýstingslyfin sem þar með falla út fyrir rammann sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga miðast við eru Katopril, Ramil, Lopress, Presmin og Valpress.

Magasýrulyfin frá Lyfis sem lækka í verði 1. mars eru Esomeprazole og Omeprazol og nemur lækkunin á bilinu 6–66% eftir stærð pakkninga. Lyfin sem við það falla út fyrir greiðsluþátttökurammann eru Lanser, Rabeprazol og Pariet.

Reglur um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga

Árið 2009 voru gerðar breytingar á fyrirkomulagi vegna greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði sjúklinga. Almenn greiðsluþátttaka sjúkratrygginga fyrir einstök lyf var bundin við ákveðinn ramma þar sem tilgreindur var hlutfallslegur munur á lægsta og hæsta verði lyfs sem áskilinn var fyrir því að sjúkratryggingar tækju þátt í greiðslu þess. Markmiðið var að beina lyfjaávísunum lækna fyrir sjúklinga sína að hagkvæmustu lyfjunum þegar verkun þeirra er sambærileg og verkun dýrari lyfja. Áskilið var að teldist meðferð með þessum lyfjum ófullnægjandi eða hefði í för með sér aukaverkanir gætu læknar sótt um lyfjaskírteini og tryggt þannig sjúklingi niðurgreiðslu vegna dýrara lyfs sem honum er nauðsynlegt.

Almenn greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna blóðþrýstingslyfja miðast við að munur á lægsta og hæsta verði þessara lyfja megi ekki vera meiri en 150%. Sem fyrr segir geta læknar sótt um lyfjaskírteini fyrir sjúklinga sem þeir telja að þurfi nauðsynlega á lyfjum að halda sem falla utan greiðsluþátttökurammans. Munur á lægsta og hæsta verði magasýrulyfja sem almenn greiðsluþátttaka sjúkratrygginga miðast við er 20%.

Breytingarnar hafa skilað miklum ávinningi

Þær breytingar sem gerðar voru á reglum um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í lyfjakostnaði árið 2009 hafa skilað verulegum ávinningi fyrir hið opinbera og sjúklinga. Sem dæmi má nefna að heildarkostnaður Sjúkratrygginga Íslands lækkaði á einu ári vegna blóðþrýstingslyfja um 60%, úr 685 milljónum króna í 277 milljónir króna. Ástæðan var tvíþætt því breytingarnar leiddu ekki aðeins til aukinnar notkunar hagkvæmari lyfja heldur urðu til þess að lyfjafyrirtæki lækkuðu verð á mörgum blóðþrýstingslækkandi lyfjum og nam lækkunin allt að 70–75%.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum