Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Réttargeðdeild Landspítala opnuð á Kleppi

Frá opnun réttargeðdeildar Landspítala á Kleppi - 1
Við opnun réttargeðdeildar Landspítala á Kleppi

Nýtt húsnæði réttargeðdeildar Landspítala á Kleppi var formlega tekið í notkun í dag. Íbúar Sogns í Ölfusi þar sem réttargeðdeildin hefur starfað frá árinu 1992 flytjast allir í nýja húsnæðið á Kleppi fyrir lok þessarar viku. „Með þessu hefst nýr kafli í réttargeðlækningum á Íslandi“ sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra í ávarpi við opnun deildarinnar. 

Með flutningi réttargeðdeildarinnar á Klepp er starfsemin komin í rúmgott húsnæði á einni hæð. Aðstaða fyrir sjúklinga er um 800 fermetrar sem er 200 fermetrum meira en á Sogni þar sem plássleysi var orðið bagalegt. Níu eins manns herbergi eru í húsnæðinu auk öryggisherbergis á sérgangi, unnt er að stækka deildina frekar ef þörf krefur og aðstæður gera kleift að aðskilja sjúklinga meira en mögulegt var á Sogni, ekki síst að skilja á milli svefnsvæða karla og kvenna.

Páll Matthíasson, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, rakti í ávarpi við opnun deildarinnar faglegan ávinning af flutningi réttargeðdeildarinnar á Klepp. Hann nefndi meðal annars betri aðgang að fagfólki og tengsl við öryggisgeðdeild sem rekin er í sömu byggingu, mun betri aðstæður til endurhæfingar og eftirfylgni sjúklinga við útskrift og bætta möguleika þess að viðhalda tengslum sjúklinga við aðstandendur sína sem skipti afar miklu máli.

Á réttargeðdeildinni á KleppiStaðsetning réttargeðdeildar var nokkuð umdeild þegar henni var valinn staður á Sogni í Ölfusi fyrir 20 árum og sýndist sitt hverjum. Þótt ýmsir teldu fagleg rök mæla gegn staðnum var einnig uppi það sjónarmið að gott væri að reka slíkar deildir úti í sveit og úr alfaraleið, meðal annars þar sem talið var að návist við náttúruna væri mannbætandi og eins væri auðveldara að tryggja öryggissjónarmið fjarri þéttri byggð. Þessi viðhorf hafa látið undan síga og nefndi Páll ýmsar faglegar úttektir sem gerðar hafa verið á liðnum árum sem studdu eindregið ákvörðun um flutning deildarinnar til höfuðborgarsvæðisins.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði í ávarpi að opnun Sogns hefði á sínum tíma markað jákvæð tímamót í sögu íslenskrar geðheilbrigðisþjónustu fyrir tuttugu árum en heyrði nú fortíðinni til. „Nú göngum við til móts við nýja og breytta tíma með það að leiðarljósi að vinna að bættri þjónustu og aðbúnaði þeirra sjúklinga sem hér eiga í hlut. Það er skylda stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda að hafa ávallt réttindi, hagsmuni og velferð sjúklinga að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Það var gert í þessu máli og ég tel engan vafa leika á því að opnun réttargeðdeildar í vel búnu húsnæði hér á Kleppi undir faglegri ábyrgð og stjórn Landspítala verður þessum málaflokki til framdráttar og sjúklingum sem og aðstandendum þeirra til mikilla hagsbóta.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum