Hoppa yfir valmynd
14. mars 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Áformað að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái heimild til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum verður heimilt að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, samþykki Alþingi frumvarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra þess efnis sem hann kynnti á fundi ríkisstjórnar fyrir helgi.

Frumvarpið felur í sér tillögu um breytingu á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu. Lagt er til að hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái heimild til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum en að heimildin verði bundin því skilyrði að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem fyrir hendi er heilsugæsla, kvenlækningar eða fæðingarþjónusta.

Miðað er við að velferðarráðherra setji reglugerð um skilyrði sem uppfylla þarf til að fá þessa heimild og að Embætti landlæknis veiti leyfi til lyfjaávísana á grundvelli þeirra. Embætti landlæknis er jafnframt ætlað að hafa eftirlit með lyfjaávísunum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra sem heimild hafa fengið til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum líkt og gildir um eftirlit embættisins með lyfjaávísunum lækna og tannlækna í samræmi við ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu.

Með frumvarpinu er brugðist við tilmælum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna en nefndin lýsti nýlega yfir áhyggjum vegna fjölda þungana og fóstureyðinga meðal stúlkna undir 18 ára aldri hér á landi. Í skýrslu nefndarinnar er bent á að ástæða fyrir þessu geti verið skortur á þekkingu um kynheilbrigði, aðgengi að getnaðarvörnum og ráðgjafaþjónustu um kynheilbrigði og jafnframt lagt til að úr þessu verði bætt.

Með þessu er einnig stefnt að því að nýta betur þá fagþekkingu sem hjúkrunarfræðingar og ljósmæður búa yfir og auka þannig skilvirkni heilbrigðisþjónustunnar en hingað til hafa einungis læknar geta ávísað umræddum getnaðarvörnum.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að verði frumvarpið að lögum sé stigið mikilvægt skref til þess að bæta aðgengi að getnaðarvörnum sem hann telji fulla þörf á að gera. Það komi skýrt fram í ábendingum barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna og meðal annars liggi fyrir að notkun hormónagetnaðarvarna sé minnst hér á landi í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar en sala á neyðargetnaðarvörnum er hvað mest hér.

„Tilgangurinn er skýr og ávinningurinn að mínu mati mikill“ segir velferðarráðherra.

 Frumvarp velferðarráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum