Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Úthlutun styrkja til atvinnumála kvenna árið 2012

Síðan 1991 hefur velferðarráðuneytið árlega úthlutað styrkjum til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir. Styrkir sem þessir skipta miklu máli fyrir frumkvöðlakonur, og eru hvatning til áframhaldandi góðra verka. Enn virðist það vera svo að konur fá lægri styrki en karlar og eru styrkveitingar sem þessar til þess fallnar að rétta hlut kvenna.

Árið 2012 voru 26 milljónir til úthlutunar en auglýst var eftir umsóknum í lok janúar og var umsóknarfrestur til 14. febrúar. Að þessu sinni bárust 297 umsóknir hvaðanæva af landinu en sérstök ráðgjafanefnd mat umsóknir.

Úthlutun styrkja fór fram í Nauthóli þann 3. apríl og hlutu 36 verkefni styrki að fjárhæð alls 26.010.000 kr.

22 styrkir fóru til kvenna á höfuðborgarsvæðinu en 14 til kvenna á landsbyggðinni og eru styrkirnir veittir til markaðssetningar, vöruþróunar, launakostnaðar og enn fremur til gerðar viðskiptaáætlana.

Hæstu styrkina hlutu Icelandic Cinema online, 2.000.000 kr. vegna vöruþróunar verkefnisins Icelandic film locations og Tungumál og menning, 1.600.000 kr. vegna verkefnisins Lifandi tungumálakennsla.

Styrkir voru til fjölbreyttra verkefna og má þar nefna styrk vegna uppbyggingu kanínuræktar, til þarabaða á Reykhólum, vegna baðvörulínu, bílabingós, framleiðslu á duftkerjum, til framleiðslu jurtakryddsalts úr íslensku salti, handtuftaðra motta, markaðssetningu prjónaferða, snúningslaka, færanlegs skjólveggjar, heilsukodda og ostagerðar.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum