Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Ekki verður deilt um þörf fyrir nýjan Landspítala

Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri og Börn Zoëga forstjóri Landspítala
Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri og Börn Zoëga forstjóri Landspítala

Í samhengi við árlegan rekstrarkostnað sjúkrahússins og miðað við ávinninginn, hvort sem litið er til hagræðis í rekstri, öryggis sjúklinga, gæða þjónustunnar, starfsumhverfisins og þar með fýsileika þess að starfa á sjúkrahúsinu er kostnaður við byggingu nýs spítala ekki mikill, sagði Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í ávarpi á ársfundi Landspítala í dag sem hún flutti fyrir hönd velferðarráðherra.

Anna Lilja sagði í ávarpinu að það kæmi fólki á óvart þegar því væri gerð grein fyrir kostnaði áformaðra framkvæmda í samhengi við rekstrarkostnað sjúkrahússins. Áætlaður kostnaður vegna framkvæmdanna er um 45 milljarðar króna en samkvæmt fjárlögum þessa árs kostar rekstur Landspítala árið 2012 um 39 milljarða króna.

„Við þurfum nýjan Landspítala, um það verður ekki deilt. Nýr Landspítali í húsnæði sem uppfyllir kröfur um nútímalegan sjúkrahúsrekstur felur í sér margvísleg sóknarfæri í nútíð og framtíð. Óbreytt ástand rekstursins í gömlum og ófullnægjandi húsakosti sem er tvístraður út um allar koppagrundir er okkur aftur á móti fjötur um fót og ógnar stöðu okkar og markmiðum um framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, öryggi og gæði.“

Í ávarpinu kom fram að forhönnun bygginga nýs spítala liggur fyrir og unnið að fullnaðarhönnun gatna á svæðinu. Forval og útboð framkvæmda fara fram í sumar og ættu tilboð að liggja fyrir í haust, en útboðin fara fram með fyrirvara um samþykki deiliskipulags og heimild Alþingis fyrir framkvæmdunum.

Í ávarpi ráðherra var rætt um þann viðsnúning sem orðið hefur í rekstri Landspítala: „Að margra mati hefur ykkur tekist hið ómögulega. Tvö ár í röð hefur reksturinn verið innan ramma fjárlaga, þrátt fyrir miklar kröfur um hagræðingu og sparnað. Hér hefur ekki verið hvikað frá því markmiði að halda rekstri innan fjárheimilda.

Aldrei hefur þó verið slakað á kröfum um öryggi og gæði. Faglegur metnaður er hér augljóslega í fyrirrúmi og gildin sem hér hafa verið sett um fagmennsku, öryggi, framþróun og umhyggju í hávegum höfð.

Landspítali er öryggisnet í eigu og þágu þjóðar segir meðal annars í stefnu sjúkrahússins um hlutverk hans. Þetta hefur Landspítali sýnt í verki og verkefni ykkar frá degi til dags eru til vitnis um það. Verkefni eru ekki valin hingað inn, hér er tekist á við hvers konar vandamál sem upp koma og þau leyst.“

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum