Hoppa yfir valmynd
21. maí 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um rekstur Lyfjastofnunar

Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu þar sem fjallað er um hvernig fylgt hefur verið eftir ábendingum hennar um rekstur Lyfjastofnunar frá árinu 2009. Fram kemur að brugðist hefur verið við flestum þeirra en tvær nýjar ábendingar koma fram sem lúta að rekstrarvanda Lyfjastofnunar og kostnaði hennar vegna stjórnsýsluverkefna.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar; Lyfjastofnun – Niðurstaða forkönnunar (2009) beindi Ríkisendurskoðun nokkrum ábendingum til Lyfjastofnunar og heilbrigðisráðuneytis (nú velferðarráðuneyti). Um tveimur og hálfu ári síðar hefur flestum ábendinganna verið hrint í framkvæmd að hluta til eða öllu leyti segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem tilgreinir að gjaldskrá Lyfjastofnunar hafi verið breytt, unnið hafi verið að endurskoðun lyfjalaga og breytingum á reglugerðum sem settar eru með stoð  í þeim og jafnframt hafi opinber umsýsla lyfjamála verið tekin til gagngerrar athugunar. Ríkisendurskoðun lýsir yfir ánægju með þetta og hvetur velferðarráðuneytið til að vinna áfram með markvissum hætti að þessum þáttum og ljúka þeim. Þá beinir Ríkisendurskoðun til velferðarráðuneytisins tveimur nýjum ábendingum sem lúta að rekstrarvanda Lyfjastofnunar og kostnaði hennar vegna stjórnsýsluverkefna. 

Bent er á að neikvæð fjárhagsstaða Lyfjastofnunar skýrist að stórum hluta af því hvernig hún er fjármögnuð og hvernig tekjur hennar og gjöld eru færð í bókhald ríkisins: „Í samræmi við rekstrarform hennar og reikningsskilareglur ríkisstofnana í A-hluta ríkissjóðs er sá hluti kostnaðar hennar sem fer umfram útgjaldaheimild fjárlaga bókfærður sem halli. Stofnuninni er óheimilt að mæta þessum halla með mörkuðum tekjum sínum sem eru umfram áætlun fjárlaga nema Alþingi kveði sérstaklega á um það í fjár- eða fjáraukalögum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum