Hoppa yfir valmynd
1. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ný reglugerð um færni- og heilsumat

Þjónusta við aldraða
Þjónusta við aldraða

Reglugerð velferðarráðherra sem kveður á um störf færni- og heilsumatsnefnda og breytt fyrirkomulag við mat á þörf fólks fyrir búsetu í dvalar- og hjúkrunarrými eða tímabundna hvíldarinnlögn tók gildi í dag. Ákvarðanir um dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými og um hvíldarinnlagnir sem teknar hafa verið fyrir 1. júní halda gildi sínu.

Með breytingunni 1. júní hafa vistunarmatsnefndir dvalar- og hjúkrunarrýma verið sameinaðar. Í þeirra stað hefur verið skipuð ein færni- og heilsumatsnefnd í hverju heilbrigðisumdæmi sem metur þörf fólks fyrir þessi úrræði í stað tveggja nefnda áður.

Sameining nefndanna er gerð í samræmi við breytingu á lögum um málefni aldraðra og lögum um heilbrigðisþjónustu sem Alþingi samþykkti 20. mars síðastliðinn. Markmiðið er að auðvelda fólki að sækja um búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili og jafnframt að einfalda stjórnsýsluna, enda fækkar þar með nefndum úr fjórtán í sjö. Breytingin felur einnig í sér að framvegis þarf að sækja um tímabundna hvíldarinnlögn til færni- og heilsumatsnefndar.

Mat á þörf fólks fyrir hvíldarinnlagnir

Til þessa hefur ekki farið fram formlegt og samræmt mat á þörf fólks fyrir hvíldarinnlagnir en með breytingunni nú er færni- og heilsumatsnefndunum falið að annast slíkt mat. Með hvíldarinnlögn er átt við tímabundna dvöl í hjúkrunarrými, allt frá nokkrum dögum að átta vikum að hámarki. Þar er fólki veitt endurhæfing eða tímabundin umönnun vegna sértækra vandamála og jafnframt getur hvíldarinnlögn verið veitt þegar einhver nákominn hinum aldraða sem hefur veitt honum aðstoð og stuðning þarfnast hvíldar eða forfallast skyndilega. Markmið hvíldarinnlagna er að gera fólki kleift að búa áfram á eigin heimili.

Mat færni- og heilsumatsnefnda á umsókn um hvíldarinnlögn skal liggja fyrir innan viku frá því að umsókn berst. Niðurstöður mats vegna umsókna um dvalar- eða hjúkrunarrými skulu alla jafna liggja fyrir innan fjögurra vikna.

Upplýsingar um skipan færni- og heilsumatsnefndanna:

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum