Hoppa yfir valmynd
12. júní 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þingsályktun í málefnum fatlaðs fólks samþykkt á Alþingi

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Alþingi hefur samþykkt þingsályktun um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra lagði fram á þinginu í janúar síðastliðnum.

Þingsályktunartillagan var unnin í samræmi við bráðabirgðaákvæði með breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks sem Alþingi samþykkti árið 2010 í tengslum við flutning ábyrgðar á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Undirbúningurinn var á hendi starfshóps sem velferðarráðherra skipaði í júní 2011 þar sem sátu fulltrúar velferðarráðuneytisins, Landssamtakanna Þroskahjálpar, Öryrkjabandalags Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Þingsályktunin skiptist í þrjá þætti. Í fyrsta lagi er sett fram stefna í málefnum fatlaðs fólks árin 2012–2020. Í öðrum þætti er framkvæmdaáætlun í málaflokknum fyrir árin 2012–2014 og í þriðja þætti eru tíundaðar útfærslur á einstökum verkefnum framkvæmdaáætlunarinnar. Hluti áætlunarinnar felur í sér tímasettar aðgerðir vegna fullgildingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í áliti meiri hluta velferðarnefndar Alþingis segir meðal annars að ályktunin sé mjög mikilvæg þar sem í henni birtast þau meginmarkmið sem hafa beri í heiðri þegar málefni fatlaðs fólks eru til umfjöllunar, markviss áætlun um það hvernig staðið skuli að upplýsingaöflun um stöðuna í málaflokknum og hvernig aðgerðaáætlun byggð á þeim upplýsingum skuli vera.

Meiri hluti velferðarnefndar lagði til nokkrar breytingar á þingsályktunartillögunni þar sem aukin áhersla var lögð á mannréttindi og stjórn fatlaðs fólks á eigin lífi og voru þær breytingar samþykktar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum