Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Yfirlýsing vegna opinberrar umræðu um forsjármál

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Þegar málefni sem varða velferð barna eru til umfjöllunar ber stjórnvöldum ævinlega að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi og aðhafast það sem börnunum er fyrir bestu. Íslensk löggjöf og alþjóðlegir samningar taka mið af þessu. Af gefnu tilefni vill velferðarráðuneytið koma á framfæri nokkrum mikilvægum staðreyndum sem tengjast forsjármáli sem verið hefur til opinberrar umræðu að undanförnu. 

Velferðarráðuneytið leggur áherslu á að farið sé að lögum, að alþjóðlegir samningar séu virtir og sömuleiðis niðurstöður dómstóla. Þetta er grundvallaratriði svo tryggja megi jafnræði og réttmæta og faglega málsmeðferð. Líkt og Barnaverndarstofa bendir á í umfjöllun á vefsíðu sinni; „geta barnaverndarstarfsmenn ekki látið mál til sín taka af geðþótta og án lagaheimilda, jafnvel þótt þeir hafi ríka samúð með þeim sem hlut eiga að máli.“ Þessi ábending á jafnt við hvort sem í hlut eiga stofnanir og opinberir starfsmenn þeirra eða æðstu stjórnvöld og embættismenn.

Dómstólar fjalla um ágreining í forsjármálum samkvæmt barnalögum og liggur ábyrgð á málaflokknum hjá innanríkisráðuneytinu. Í umræddu forsjármáli hafa danskir dómstólar dæmt foreldrum barnanna sem í hlut eiga sameiginlegt forræði og jafnframt að lögheimili barnanna skuli vera hjá föður þeirra í Danmörku. Ísland er aðili að Haagsamningnum sem fjallar um brottnám barna. Innsetningaraðgerð sem gripið var til í kjölfar niðurstöðu íslenskra dómstóla er neyðaraðgerð sem sýslumenn beita í undantekningartilvikum.

Velferðarráðuneytið hefur kannað hvort íslenskum barnaverndaryfirvöldum sé heimilt að grípa inn í mál þegar lögsagan er í öðru réttarríki, líkt og var niðurstaða danskra og íslenskra dómstóla í umræddu máli. Samkvæmt lögum eru engar slíkar heimildir fyrir hendi.

Velferðarráðuneytið leggur áherslu á að ef mál sem varða börn eru til umfjöllunar hjá erlendum dómstólum skipti miklu máli að foreldrar séu til staðar hjá börnum sínum meðan á málsmeðferð stendur og virði lög og reglur. Það tryggir skjótari málsmeðferð og kemur í veg fyrir röskun á lífi barnanna sem eiga að njóta verndar bæði foreldra og stjórnvalda.

Barnaverndarlöggjöf á Íslandi og í Danmörku er sambærileg í öllum meginatriðum. Barnaverndaryfirvöldum í Danmörku er því skylt að rannsaka aðstæður barna ef grunur er um að velferð þeirra sé ógnað á einhvern hátt og bregðast við á þann hátt sem er börnunum fyrir bestu, rétt eins og gildir í barnaverndarmálum á Íslandi.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum