Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Ný rannsókn á sviði barnaverndar

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Á vegum velferðarráðuneytisins er nú unnið að rannsókn á aðgerðum barnaverndar vegna barna sem bíða tjón af áfengis- og vímuefnaneyslu foreldra. Erlendar rannsóknir sýna að misnotkun foreldra á áfengi og öðrum vímuefnum er stór þáttur í vanrækslu barna.

Markmið rannsóknarinnar er að kanna hve hátt hlutfall barna sem barnavernd hefur afskipti af hefur orðið fyrir tjóni af völdum neyslu foreldra á áfengi, ólöglegum vímuefnum og lyfjum og einnig að kanna viðbrögð og úrræði barnaverndar.

Árið 2010 kom út niðurstaða rannsóknar á ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum sem sýndi meðal annars að 59% ofbeldismannanna voru undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna þegar konurnar voru beittar ofbeldinu. Þá sýna bráðabirgðaniðurstöður tilraunaverkefnis á vegum Barnaverndarstofu, þar sem starfsmaður barnaverndar er kallaður til um leið og lögregla vegna ofbeldis þegar börn eru á heimilinu, að um 68% ofbeldismannanna hafa reynst undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.

Þess er vænst að rannsóknin sem nú er unnið að á vegum velferðarráðuneytisins geti leitt í ljós hvort það sé til hagsbóta fyrir börn og foreldra þeirra ef barnavernd nálgast tjón barna vegna áfengis- og vímuefnaneyslu foreldranna sem sérstakt vandamál. Talið er líklegt að slík nálgun geti eflt vitund og aukið árvekni barnaverndar í málum sem þessum og gert stuðningsúrræði markvissari.

Rannsóknin byggist á gögnum frá Barnavernd Reykjavíkur á afmörkuðu tímabili og er úrtakið tilkynningar til barnaverndar þar sem getið er um neyslu foreldra á áfengi, ólöglegum vímuefnum og lyfjum. Gögnin verða ekki persónugreinanleg og hefur Persónuvernd veitt leyfi fyrir rannsókninni.

Áætlað er að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir í lok þessa árs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum