Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hillevi Engström vinnumálaráðherra Svía í heimsókn

Guðbjartur Hannesson og Hillevi Engström
Guðbjartur Hannesson og Hillevi Engström

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra tók í dag á móti Hillevi Engström, vinnumálaráðherra Svía, sem stödd er hér á landi til að kynna sér aðgerðir íslenskra stjórnvalda á sviði vinnumarkaðsmála og framkvæmd vinnumarkaðsúrræða. 

Ráðherrarnir áttu fund saman í velferðarráðuneytinu fyrir hádegi. Engström fór yfir stöðu þessara mála í Svíþjóð og Guðbjartur gerði grein fyrir því hvernig stjórnvöld brugðust við efnahagshruninu og afleiðingum þess með áherslu á að verja velferðarkerfið og sporna gegn atvinnuleysi með fjölbreyttum aðgerðum: „Atvinnuleysi er nú það minnsta sem mælst hefur frá árslokum 2008, er um 4,7% sem er með því minnsta sem þekkist í Evrópu. Þetta sýnir að aðgerðir okkar hafa skilað árangri. Það eru hins vegar ákveðnir hópar sem við þurfum nú að huga að sérstaklega, ekki síst einstæðir foreldrar og við munum leggja áherslu á aðgerðir til að bæta stöðu þeirra og barnafjölskyldna á komandi mánuðum.“

Í framhaldi af fundi ráðherranna kynnti Lára Björnsdóttir velferðarvaktina og verkefni hennar fyrir sænska vinnumálaráðherranum og Stefán Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands sagði frá niðurstöðum rannsókna sinna á áhrifum fjármálahrunsins á lífskjör þjóðarinnar.

Hillevi Engstrom og Þorbjörn Jensson ræða um starfsemi FjölsmiðjunnarEftir hádegi heimsótti Engström Fjölsmiðjuna sem er vinnusetur fyrir ungt fólk þar sem veitt er þjálfun til undirbúnings þátttöku á almennum vinnumarkaði eða frekara námi. Því næst heimsótti Engström Vinnumálastofnun og kynnti sér starfsemina þar og undir lok dags lá leiðin í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð sem starfar samkvæmt lögum nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum