Hoppa yfir valmynd
11. september 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Starfshópur um undirbúning frumvarps um staðgöngumæðrun

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur skipað starfshóp um undirbúning frumvarps til laga sem heimili staðgögumæðrun í velgjörðarskyni.

Unnið hefur verið að verkefninu í velferðarráðuneytinu síðustu mánuði, en í janúar síðastliðnum ályktaði Alþingi að fela velferðarráðherra að undirbúa frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.

Starfshópinn skipa:

  • Kristrún Heimisdóttir, formaður, lektor í lögfræði
  • Hrefna Friðriksdóttir, lektor í lögfræði
  • Sigurður Kristinsson, siðfræðingur og forseti hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri

Þá hefur verið að ákveðið að Karen Busby, lagaprófessor við Manitoba háskóla, verði starfshópnum til sérstakrar ráðgjafar.

Í skipunarbréfi starfshópsins segir:

Starfshópurinn skal skila velferðarráðherra texta frumvarps og greinargerðar sem byggir á bestu þekkingu og rannsóknum um málefnið, sbr. áskilnað Alþingis um faglegt mat og alþjóðlegar rannsóknir.
 
Gerð verði grein fyrir meginspurningum á sviði lögfræði, siðfræði, læknisfræði og fleiri fræði- og vísindagreina þar sem fjallað hefur verið um málefnið auk löggjafar í öðrum ríkjum, sbr. áskilnað Alþingis um að reynsla annarra þjóða verði lögð til grundvallar. Alþingi leggur áherslu á að tryggt verði þrennt: 

  1. Hagur og réttindi barnsins
  2. Sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar
  3. Farsæl aðkoma verðandi foreldra. 

Í greinargerð verði skýrlega fjallað um ofangreind þrjú atriði, þar komi fram hvernig staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni verði færð inn í íslenskt réttarkerfi og eftir atvikum gerð grein fyrir mismunandi leiðum við það og lýst réttaráhrifum af hverri leið. Þá verði leitast við að uppfylla áskilnað ályktunar Alþingis um skýrleika um trausts lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur um framkvæmd og eftirlit með staðgöngumæðrun. Enn fremur hvernig stuðlað verði að upplýstri umræðu í samfélaginu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum