Hoppa yfir valmynd
24. október 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Viðurkenningar fyrir vinnuverndarstarf

Fjögur fyrirtæki fengu viðurkenningu fyrir vinnuverndarstarf á fjölmennri vinnuverndarráðstefnu sem haldin var í gær í tilefni evrópskrar vinnuverndarviku sem nú stendur yfir. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra afhenti viðurkenningarinnar sem veittar voru fyrir forystu stjórnenda og virka þátttöku starfsfólks í kerfisbundnu vinnuverndarstarfi.

Evrópska vinnuverndarstofnunin stendur árlega fyrir vinnuverndarviku þar sem Evrópuþjóðir sameinast í átaki til að vekja athygli á þessum mikilvæga málaflokki. Markmiðið er að bæta öryggi á vinnustöðum og gera þá heilsusamlegri. Starfshópur skipaður fulltrúum atvinnulífsins og Vinnueftirlitsins sér um framkvæmd vinnuverndarvikunnar hér á landi og ber átakið að þessu sinni yfirskriftina Vinnuvernd – allir vinna.

Vísað er til þess að markvisst og árangursríkt vinnuverndarstarf skili margvíslegum ávinningi sem einnig megi meta til fjár, þótt skiljanlega beinist sjónir manna einkum að mannlega þættinum með áherslu á að forða slysum og draga úr veikindum og vanheilsu.

Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að fjárfesting fyrirtækja í vinnuvernd skilar sér rúmlega tvöfalt til baka. Til mikils er að vinna, því kostnaður samfélagsins vegna vinnuslysa og vinnutengdrar vanheilsu er talinn nema um 4% af vergri landsframleiðslu þjóða samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni. Í Evrópu verða árlega um 6,9 milljónir manna fyrir vinnuslysum og 23 milljónir manna stríða við vinnutengda vanheilsu.

Fyrirmyndarfyrirtæki á sviði vinnuverndar

Viðurkenninar fyrir vinnuverndarstarf féllu að þessu sinni í skaut Fljótsdalsstöðvar sem Landsvirkun rekur, Reykjafiski á Húsavík, Þjóðminjasafni Íslands og Mannviti, verkfræðistofu.

Mannvit og Reykjafiskur voru jafnframt tilnefnd til að taka þátt í Evrópukeppni fyrirtækja fyrir framúrskarandi starfshætti á sviði vinnuverndar og er þetta í fyrsta sinn sem Ísland á aðild að keppninni. Úrslit verða ljós í apríl árið 2013.

Nánari upplýsingar á vef Vinnuverndareftirlitsins

Frá afhendingu viðurkenninga fyrir vinnuverndarstarf

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum