Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Endurskoðun reglugerðar um aðgerðir gegn einelti á vinnustað

Verið er að endurskoða ákvæði laga sem fjalla um einelti og kynferðislega áreiti og gildandi reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra sagði frá þessu á samkomu í  Þjóðmenningarhúsinu í gær sem haldin var í tilefni árlegs baráttudags gegn einelti 8. nóvember. 

Í júní árið 2010 samþykkti ríkisstjórnin aðgerðaáætlun í þrjátíu liðum til að vinna gegn einelti á vinnustöðum og í skólum. Þrjú ráðuneyti stóðu saman að gerð áætlunarinnar og höfðu við vinnuna samráð við fjölda hagsmuna- og fagaðila sem létu sig málið varða. Aðgerðaáætluninni fylgdi fé til framkvæmda og sett var á fót verkefnisstjórn og ráðinn verkefnisstjóri til að fylgja málum eftir.

Aðgerðir sem snúa að velferðarráðuneytinu sérstaklega varða aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum. Í samræmi við aðgerðaáætlunina er nú unnið að því að endurskoða ákvæði laga sem fjalla um einelti og kynferðislega áreitni og einnig er verið að endurskoða gildandi reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Margir koma að þessu verki, en í nefnd um endurskoðunina eiga sæti fulltrúar Vinnueftirlits ríkisins, Jafnréttisstofu, Sambands sveitarfélaga, starfsmannaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, ASÍ, BSRB, BHM, Kennarasambandinu og Samtaka atvinnulífsins. 

Þann 8. nóvember í fyrra var opnað fyrir undirritun Þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti þar sem fólk með undirskrift sinni skuldbindur sig til þess að vinna gegn einelti og þjóðin er þannig hvött til þess að standa saman gegn þessu böli í samfélaginu. Enn gefst fólki kostur á að undirrita sáttmálann og hvatti velferðarráðherra til þess á samkomunni í gær: „Ég hvet alla til þess að gerast aðila að sáttmálanum og leggja þessu mikilvæga máli lið, taka virkan þátt í því að útrýma einelti úr samfélaginu með því að axla ábyrgð jafnt í orði og verki.“ Sáttmálann getur fólk undirritað með því að fara inn á vefsíðuna: www.gegneinelti.is.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum