Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný lög um málefni innflytjenda

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um málefni innflytjenda og öðlast lögin þegar gildi. Með lögunum er mælt fyrir um hvernig stjórnsýslu í málefnum innflytjenda skuli háttað og hlutverk og starfsemi Fjölmenningarseturs, innflytjendaráðs og þróunarsjóðs innflytjenda bundið í lög. 

Innan árs frá gildistöku laganna skal velferðarráðherra leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára. Í henni skal meðal annars kveðið á um verkefni sem hafa að markmiði að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Tilgreina skal framkvæmd, ábyrgð og áætlaðan kostnað verkefna í áætluninni auk upplýsinga um hvernig meta skuli árangur aðgerða. Ráðherra skal jafnframt leggja fram skýrslu fjórða hvert ár þar sem fram kemur mat á stöðu og þróun í málefnum innflytjenda og á að leggja hana fram samhliða þingsályktunartillögunni. 

Með bráðabirgðaákvæði er ráðherra veitt heimild til að skipa núverandi framkvæmdastjóra Fjölmenningarseturs í embætti forstöðumanns þess til loka árs 2013 en þá ber að auglýsa embættið laust til umsóknar. Jafnframt er kveðið á um að núverandi starfsmenn Fjölmenningarsetursins sem það kjósa verði starfsmenn hjá nýju stofnuninni og haldi óbreyttum starfskjörum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum