Hoppa yfir valmynd
2. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Alþjóðlegur dagur fatlaðs fólks 3. desember

 Sameinuðu þjóðirnar standa fyrir alþjóðlegum degi fatlaðs fólks á morgun, 3. desember, líkt og verið hefur allt frá árinu 1981. Fjarlægjum hindranir og sköpum aðgengilegt samfélag fyrir alla er áhersla dagsins að þessu sinni. 

Í tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum kemur fram að um það bil 15% fólks í heiminum búi við fötlun af einhverju tagi. Fatlað fólk sé þannig „stærsti minnihlutahópurinn“ sem búi við margvíslegar hindranir í samfélaginu. Er í því sambandi bent á sýnilegar hindrarnir í umhverfinu sem skerða aðgengi fatlaðs fólks, skertan aðgang að upplýsingum og upplýsingatækni, lagalegar hindranir og hindranir sem rekja má til samfélagslegra viðhorfa og misréttis. „Afleiðingarnar eru þær að fatlað fólk hefur ekki aðgang að samfélaginu til jafns við aðra, hvorki til þjónustu, menntunar, vinnu, heilbrigðisþjónustu, samgangna, þátttöku í stjórnmálum eða réttlætis“ segir í tilkynningunni.

Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er réttur fatlaðra til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra grundvallaratriði. Skorað er á aðildarþjóðirnar að grípa til aðgerða sem nauðsynlegar eru til að tryggja fötluðu fólki þennan rétt. Í því felst meðal annars að skilgreina og viðurkenna þær hindranir sem standa í veginum og víkja þeim til hliðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum