Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2013 Innviðaráðuneytið

Samantekt um fjárhagsstöðu heimilanna

Stjórnarráðið
Stjórnarráðið

Sértæk úrræði fyrir heimili í skuldavanda hafa skilað miklum árangri en þau duga ekki þeim sem eru í mestum greiðsluerfiðleikum. Fjárhagsvandi fólks einskorðast ekki við fasteignalán og því þarf aðgerðir sem styðja við heimili í greiðsluvanda án tillits til búsetukosta. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri greinargerð um fjárhagsstöðu heimilanna

Greinargerðin var unnin að frumkvæði forsætisráðuneytisins í samvinnu ráðuneyta og ýmissa stofnana í því skyni að draga upp heildstæða mynd af stöðu skulda- og greiðsluvanda heimilanna, rekja þróunina frá hruni og greina áhrif þeirra úrræða sem gripið hefur verið til.

Helstu niðurstöður:

  • Skuldir heimila sem hlutfall af landsframleiðslu hafa lækkað úr 135% árið 2009 í 108% í september 2012 sem er sambærilegt við skuldastöðuna í september 2006.
  • Hrein eign heimila í íbúðarhúsnæði jókst á nýjan leik milli áranna 2010 og 2011 og yfirveðsettum heimilum fækkar um ríflega 4.000 milli ára.
  • Vanskil við viðskiptabankana þrjá hafa lækkað umtalsvert en hluti viðskiptavina með vanskil hefur farið úr 34,1% í 15,5% frá júlí 2010 til nóvember 2012.
  • Í maí 2010 voru 22% lántakenda í vanskilum við viðskiptabankana og Íbúðalánasjóð en 16% í júlí 2012.
  • Nú þegar hafa 147 milljarðar króna verið afskrifaðir vegna ólöglegra gengistryggðra skulda heimilanna. Þá hafa lán verið færð niður um rúmlega 50 milljarða króna vegna 110% leiðarinnar og sértækrar skuldaaðlögunar.
  • Um 11.700 heimili höfðu fengið lækkun fasteignaskulda að 110% veðsetningu í árslok 2011.

Í greinargerðinni segir að niðurstöðurnar styðji vel við þá afstöðu stjórnvalda frá upphafi að leggja áherslu á sértæk úrræði fyrir þau heimili sem áttu í mestum vanda í stað þess að beita almennum aðgerðum í allra þágu, óháð aðstæðum þeirra. Aftur á móti sé ljóst að afmarkaðar skuldaaðgerðir duga ekki til að mæta aðstæðum þeirra sem glíma við mestan greiðsluvanda. Önnur lán en til kaupa á fasteignum hafi reynst mörgum heimilum þung í skauti, það sýni sig að greiðsluvandinn er mestur hjá barnafjölskyldum og lágtekjuheimilum og eins sýni útreikningar að miklar líkur eru á því að þeir sem keyptu fasteign á árunum 2006-2008 glími enn við skuldavanda þótt 110% leiðin hafi að nokkru leyti komið til móts við þann hóp. Framantaldir hópar þurfi því á frekari stuðningi að halda. Enn fremur segir að til þess að koma til móts við þá hópa sem glíma við mestan greiðsluvanda dugi ekki afmarkaðar skuldaaðgerðir heldur þurfi að huga að öðrum þáttum, svo sem stuðningi við barnafjölskyldur og aukna atvinnu. Bent er á að fjárhagsvandræði fjölskyldna einskorðist ekki við fasteignalán. Því þurfi að skoða aðrar leiðir en þær sem eingöngu gagnast íbúðareigendum og styðja við heimili í greiðsluvanda án tillits til búsetukosta. Fyrstu skrefin í þessa átt hafa verið stigin með umtalsverðri hækkun húsaleigubóta og barnabóta í áföngum sem hefjast á þessu ári auk ákvörðunar um endurreisn Fæðingarorlofssjóðs.

Fjallað er um stöðu þeirra sem eiga lán í umsjá Dróma en mikil óánægja hefur verið með samskipti við fyrirtækið. Til skoðunar eru möguleikar á því að koma þessum lánum í umsjá starfandi fjármálafyrirtækja en niðurstaða liggur ekki fyrir. Lánsveðshópurinn svokallaði, sem greiðir af fasteignaláni sem ekki hvílir á eigin fasteign, er einnig mjög skuldsettur og hefur ekki getað nýtt sér helstu úrræðin eins og 110% leiðina. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að leysa vanda þessa hóps í samráði við lífeyrissjóðina.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum