Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Velferðarráðherra ávarpaði ársfund Landspítala

Landspítali
Landspítali

Heilbrigðismál hafa verið áberandi umfjöllunarefni í kosningabaráttunni að undanförnu sem er góðra gjalda vert en það veldur áhyggjum hve oft hefur verið farið frjálslega með staðreyndir og umræðan verið yfirborðskennd, sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra á ársfundi Landspítala sem haldinn var í Salnum í Kópavogi í dag.

Ráðherra kom víða við í ræðu sinni. Hann benti á að við afar erfiðar aðstæður þar sem fimmta hver króna tapaðist úr ríkissjóði við efnahagshrunið hefði áhersla verið lögð á að verja velferðarkerfið með áherslu á að það þjóni sem fyrr öllum landsmönnum, óháð aðstæðum og efnahag. „Þótt deilt sé um árangurinn, ekki síst nú í aðdraganda kosninga, hafa ítrekað verið birtar niðurstöður erlendra rannsókna sem sýna að varnarbarátta okkar hefur um margt verið árangursrík, “ sagði ráðherra og vísaði meðal annars í nýlega fræðigrein The Lancet sem staðfestir þetta og niðurstöður Euro Healt Consumer Index árið 2012 þar sem Ísland var í þriðja sæti þeirra landa sem úttektin náði til og sýndi meðal annars að íslenskir sjúklingar hafa mikil réttindi eru vel upplýstir, biðtími eftir þjónustu er stuttur í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir og árangur með því besta sem gerist í Evrópu.

Ráðherra gerði að umtalsefni umræður liðinna vikna um velferðarmál, einkum heilbrigðismál í aðdraganda kosninga. Hann sagði umræður um þessi mál góðra gjalda verð en það væri hins vegar áhyggjuefni hve oft væri farið frjálslega með staðreyndir og umræðan yfirborðskennd.

Ráðherra sagði frá því að nú væri búið að auglýsa eftir umsækjendum til að taka þátt í forvali útboðs fyrir fullnaðarhönnun meðferðarkjarna og rannsóknarhúss nýs Landspítala, en útboðsgögnin voru birt á vef Ríkiskaupa í dag. Hann fjallaði einnig um aukin útgjöld til S-merktra lyfja, um aukið fé til tækjakaupa á sérgreinasjúkrahúsunum tveimur, þ.e. Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri, ræddi um uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma, jafnlaunaátak á heilbrigðisstofnunum og margt fleira.

Í lok ræðu sinnar ræddi ráðherra um fjölþætt hlutverk Landspítala sem háskólasjúkrahús, rannsóknastofnun, sjúkrahús höfuðborgarbúa og síðast en ekki síst allra landsmanna: „Þessu margþætta hlutverki gegnir Landspítalinn með sóma, þökk sé vel menntuðu, reyndu og metnaðarfullu starfsliði. Það er ekki að ástæðulausu sem Landspítalinn nýtur mikils trausts í samfélaginu. Jafnvel þeir sem harðast hafa gagnrýnt niðurskurð fjármuna til sjúkrahússins og segja hann kominn á heljarþröm bæta því jafnan við að þrátt fyrir allt sé heilbrigðisþjónustan sem þar er veitt örugg og góð.

Þetta traust sem Landspítalinn nýtur á sinn þátt í því að almenningur vill veg hans sem mestan. Fjöldi félagasamtaka færir sjúkrahúsinu reglulega höfðinglegar gjafir sem hefur svo sannarlega munað um í rekstrinum og gert kleift að ráðast í mikilvægar framkvæmdir og tækjakaup sem ella hefði ekki reynst mögulegt. Þetta er ómetanlegt, þótt gjafir sem þessar hvorki geti né megi verða sjálfsagður hluti af rekstraráætlunum sjúkrahússins, heldur eigi fyrst og fremst að vera kærkomin viðbót sem nýtist til að gera gott betra.

Ágæta starfsfólk og aðrir gestir. Ég óska starfsfólki Landspítala velfarnaðar í mikilvægum störfum sínum og færi ykkur öllum mínar bestu þakkir fyrir ómetanlegt og eftirtektarvert framlag á erfiðum tímum.“

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum