Hoppa yfir valmynd
19. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Styrkir til félagasamtaka sem sinna þolendum kynferðisbrota

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Þrenn félagasamtök; Sólstafir á Ísafirði, Aflið á Akureyri og Drekaslóð, sem öll sinna þjónustu við þolendur kynferðisbrota hlutu styrki, samtals fimm milljónir króna frá velferðarráðuneytinu, í samræmi við tillögur starfshóps forsætisráðherra sem kynntar voru í apríl síðastliðnum. 

Samráðshópurinn var skipaður í janúar á þessu ári. Verkefni hans var að stuðla að samhæfðri framkvæmd stjórnvalda til þess að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi, treysta burði réttarvörslukerfisins til þess að koma lögum yfir kynferðisbrotamenn og að tryggja skilvirk úrræði fyrir þolendur kynferðisbrota og markvissar forvarnaraðgerðir. Ein af tillögum hópsins var að auka stuðning við félagasamtök sem sinna þjónustu við brotaþola og að veita strax fimm milljónum króna í styrki til slíkra samtaka.

Velferðarráðuneytinu var falið að meta hvaða félög skyldu hljóta styrki við úthlutun þessarar fjárhæðar. Ákvörðun um styrkveitingar var tekin í apríl. Styrkir voru veittir Aflinu á Akureyri sem er fyrir alla sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og/eða heimilisofbeldi og aðstandendur þeirra (1.660.000 kr.), Drekaslóð sem er fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur alls kyns ofbeldis og aðstandendur þeirra (1.660.000 kr.) og Sólstöfum á Ísafirði sem eru grasrótarhreyfing gegn kynferðisofbeldi (1.680.000 kr.). 

Þess má geta að velferðarráðuneytið úthlutar árlega styrkjum til félagasamtaka sem starfa á verkefnasviði ráðuneytisins og njóta ekki framlaga á fjárlögum. Úthlutun árið 2013 fór fram í mars síðastliðnum. Til ráðstöfunar voru 380 milljónir króna og voru veittir 95 styrkir til fjölbreyttra verkefna á hendi 79 félagasamtaka.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum