Hoppa yfir valmynd
26. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Landssamband eldri borgara fagnar frumvarpi um bætt kjör aldraðra

Merki Landssambands eldri borgara
Merki Landssambands eldri borgara

Stjórn Landssambands eldri borgara skorar á alþingismenn að samþykkja frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, um bætt kjör aldraðra, þar sé mikilvægt skref stigið í þá átt að draga til baka skerðingar sem lögfestar voru árið 2009. Stjórnin afhenti ráðherra afrit af samþykkt þessa efnis frá fundi stjórnarinnar í dag.
 

Í áskoruninni er minnt á að um 36.000 Íslendingar séu 67 ára og eldri og að þessi hópur hafi enga lögvarða samningsstöðu um kjör sín og réttindi. Mikilvægt sé að þingmenn samþykki frumvarpið þannig að aðstefndar kjarabætur aldraðra gangi í gildi 1. júlí. 

Samþykkt stjórnar Landssambands eldri borgara er eftirfarandi:

Landssamband eldri borgara fagnar frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um bætt kjör aldraðra

Landssamband eldri borgara fagnar frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra sem ráðherra lagði fram á Alþingi 25. júní sl. Landssambandið skorar á alþingimenn að samþykkja frumvarpið þannig að aðstefndar kjarabætur aldraðra gangi í gildi 1. júlí og minnir á að um 36.000 íslendingar eru 67 ára og eldri og hefur þessi hópur enga lögvarða samningsstöðu um kjör sín og réttindi.

Í frumvarpinu eru stigið mikilvægt fyrsta skref í þá átt að bæta kjör aldraðra og draga að fullu til baka þær skerðingar sem lögfestar voru árið 2009, eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn lofuðu á aðdraganda kosninga til Alþingis 27. apríl sl.

Ákvæði frumvarpsins um að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega hækki úr 480.000 kr. í 1.315.200 kr. á ári, hvetur aldraða til aukinnar þátttöku og virkni í atvinnulífinu og eykur möguleika þeirra á að bæta kjör sín. Ákvæði frumvarpsins um að lífeyrissjóðstekjur skerði ekki grunnlífeyri almannatrygginga mun bæta kjör fjölmargra aldraðra. Sambærileg áhrif mun hafa framkvæmd fyrirheits sem gefið er í greinargerð frumvarpsins um að lagaákvæði frá 2009 um hækkun hlutfalls tekjutengingar tekjutryggingar úr 38,35% í 45%, verði ekki framlengt er ákvæðið fellur úr gildi í árslok 2013.

Landsamband eldri borgara leggur áherslu á að haldið verði áfram vinnu í þágu aldraðra við einföldun og umbætur á almannatryggingakerfinu þar sem m.a. verði byggt á vinnu hóps sem starfaði á síðasta kjörtímabili og skipaður var fulltrúum frá öllum þingflokkum, aðilum vinnumarkaðarins og helstu hagsmunaaðilum.

Samþykkt á fundi stjórnar Landssambands eldri borgara 26. júní 2013

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum