Hoppa yfir valmynd
28. júní 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ráðherra heimsækir umboðsmann skuldara

Umboðsmaður skuldara
Umboðsmaður skuldara

Komur fólks til ráðgjafaþjónustu umboðsmanns skuldara frá stofnun embættisins 1. ágúst 2010 eru orðnar um 15.000. Umsóknir um greiðsluaðlögun eru alls um 4.700 en tæplega 3.000 umsóknir um ráðgjöf. Töluvert hefur dregið úr eftirspurn eftir þjónustu embættisins frá því mest var árið 2011. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra heimsótti embættið og kynnti sér starfsemina í gær.

Umboðsmaður skuldara er Ásta S. Helgadóttir. Heimsókn Eyglóar hófst með því að Ásta og starfsfólk embættisins kynnti lykiltölur í starfseminni og hvernig hún hefur þróast frá stofnun embættisins. Ráðherra sagði við starfsfólk umboðsmanns að hún teldi embættið afar mikilvægt: „Umboðsmaður hefur tvíþætt hlutverk þar sem hann þarf fyrst og fremst að gæta hagsmuna skuldara og vera talsmaður þeirra en jafnframt að halda trúverðugleika sínum gagnvart fjármálastofnunum við úrlausn mála til að ná árangri.“ Ráðherra ræddi einnig lög um greiðsluaðlögun einstaklinga frá árinu 2010 og sagði þau mikilvægt úrræði en jafnframt að tímabært væri að endurskoða þau og bæta í ljósi þeirrar reynslu sem nú væri fengin af þeim.

Hlutverk umboðsmanns er meðal annars að veita einstaklingum í greiðsluerfiðleikum endurgjaldslausa aðstoð við að öðlast heildarsýn á fjármál sín og leita lausna. Embættinu er einnig ætlað að hafa milligöngu um samskipti og samninga við lánveitendur með hagsmuni skuldara að leiðarljósi, veita aðstoð við greiðsluaðlögun, veita alhliða ráðgjöf og fræðslu um fjármál heimilanna, taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og gæta hagsmuna skuldara og veita þeim aðstoð þegar við á.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Ásta S. Helgadóttir, umboðsmaður skuldaraGreiðsluaðlögun samkvæmt lögum nr. 101/2010 hefur frá upphafi verið fyrirferðamikill þáttur í starfsemi umboðsmanns skuldara. Árið 2010 bárust 1.475 umsóknir um greiðsluaðlögun, 2011 voru þær 2.287, í fyrra voru þær 718 og það sem af er ári hafa borist 270 umsóknir. Af 4.700 umsóknum hefur 1.730 samningum verið lokið, 645 umsóknum hefur verið synjað og 587 mál verið afturkölluð.Þegar fjölskylduhagir umsækjenda eru skoðaðir kemur í ljós að einstaklingar eru stærsti hópurinn sem leitar til umboðsmanns, þá einstæðir foreldrar og hjón með börn en barnlaus hjón þurfa síst á aðstoð eða ráðgjöf að halda. Hlutur einstaklinga hefur farið vaxandi að undanförnu og einnig hefur orðið sú breyting að æ fleiri sem leita til umboðsmanns búa í leiguhúsnæði meðan fækkar í hópi þeirra sem búa í eigin húsnæði. Ef litið er til aldurs fjölgar ungu fólki (að 36 ára aldri) sem leitar til umboðsmanns en fækkar í aldurshópnum 36 – 55 ára. Lítilsháttar fjölgun er í hópi þeirra sem eru 56 ára og eldri.

Meðalupphæð skulda hjá þeim sem leita til umboðsmanns skuldara hefur lækkað á liðnum árum. Árið 2010 var meðalupphæð skulda um 37,3 m.kr. en er nú um 24,5 m.kr. Sama máli gegnir um verðgildi eigna þar sem meðalverðmat var 16,6 m.kr. árið 2010 en er nú um 14,2 m.kr.

Hjá umboðsmanni skuldara starfa nú 74 starfsmenn í 66 stöðugildum en flestir voru starfsmenn embættisins um 100. Áætlaður rekstrarkostnaður þessa árs er um 930 m.kr. Reiknað er með að reksturinn dragist saman á næsta ári og kostnaður lækki verulega.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum