Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um bætt lífeyrisréttindi samþykkt á Alþingi

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Frumvarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem felur í sér hækkun frítekjumarks atvinnutekna hjá ellilífeyrisþegum og að hætt verður að láta lífeyrissjóðstekjur skerða grunnlífeyri almannatrygginga var samþykkt á Alþingi í dag. Með breytingunni hækka greiðslur hjá um 7.000 lífeyrisþegum.

Með lagabreytingunni aukast framlög ríkisins til almannatrygginga um 850 milljónir króna á þessu ári og um 1,6 milljarð árið 2014 þegar áhrifin eru komin fram að fullu. Greiðslur hækka hjá um 7.000 lífeyrisþegum, þar af eru um 2.500 einstaklingar sem ekki hafa fengið greiðslur að undanförnu vegna tekjuskerðinga en öðlast rétt til lífeyris á ný. 

Þetta er fyrsta skrefið í áformum stjórnvalda um að draga til baka þær skerðingar sem gerðar voru á kjörum lífeyrisþega árið 2009. Jafnframt er hafin vinna vegna undirbúnings að afnámi annarra skerðinga og á það m.a. við um lækkun skerðingarhlutfalls tekjutryggingar úr 45% í 38,35%.

Með lagabreytingunni mun frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar hækka úr 480.000 kr. á ári í 1.315.200 kr. á ári og verða þar með sambærilegar frítekjumarki atvinnutekna hjá örorkulífeyrisþegum. Jafnframt hefur bráðabirgðaákvæði laganna um frítekjumark atvinnutekna örorkulífeyrisþega verið framlengt til ársloka 2014. Sem fyrr segir munu lífeyrissjóðstekjur ekki lengur skerða grunnlífeyri almannatrygginga samkvæmt lagabreytingunni. Lögin öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda frá 1. júlí 2013 og fyrstu greiðslur samkvæmt þessu verða 1. ágúst.

Við umfjöllun velferðarnefndar um frumvarpið var ákveðið að fella brott ákvæði um auknar eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar og rýmri aðgang stofnunarinnar að upplýsingum við ákvörðun bóta, en markmið þess ákvæðis var að bæta útreikninga á greiðslum til lífeyrisþega og draga úr bótasvikum. Meiri hluti velferðarnefndar tekur undir að stofnunin þurfi á auknum heimildum að halda. Hins vegar er það mat hennar í ljósi athugasemda sem henni bárust að vinna við ný ákvæði um eftirlitsheimildir þurfi aukinn tíma. Nefndin beinir því til velferðarráðuneytisins að málið verði endurskoðað með hliðsjón af athugasemdum og leggur hafnframt áherslu á að með auknum heimildum þurfi að veita aukið fé til reksturs Tryggingastofnunar ríkisins og þá sérstaklega til eftirlitseiningar hennar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum