Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Þurfum að vernda börn gegn ofbeldi af öllu tagi

Kynnt var á fundi með UNICEF í dag að ákvörðun liggi fyrir um að auglýsa eftir nýju og stærra húsnæði fyrir starfsemi Barnahúss. Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sátu fundinn og ræddu við ungmenni sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi og skipa sérfræðihóp barna hjá UNICEF á Íslandi.

Markmið fundarins var að ræða málefni barna og hvaða verkefni séu brýnust til að tryggja börnum á Íslandi góðar aðstæður og öryggi í uppvextinum. Fundinn sátu Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra.

Ráðherrar tjáðu þakklæti sitt til ungmennanna fyrir að deila erfiðri reynslu sinni og lögðu áherslu á mikilvægi þess að hlusta á þær ábendingar sem þau höfðu fram að færa.

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherraMálefni Barnahúss voru sérstaklega rædd á fundinum og kom skýrt fram að engum blandast hugur um að Barnahús hafi fyrir löngu sannað gildi sitt sem ómissandi úrræði fyrir börn og ungmenni sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, upplýsti að á næstu dögum verður auglýst eftir nýju húsnæði undir starfsemina, annað hvort til leigu eða kaups: „Notkun þessa úrræðis hefur aukist hratt frá því að Barnahús var stofnað og starfseminni er allt of þröngur stakkur skorinn við þessar aðstæður. Það er orðið brýnt að fjölga starfsfólki og bæta allar aðstæður svo hægt sé að sinna þessum erfiðu verkefnum á sem bestan hátt með hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. Því er einstaklega ánægjulegt að geta sagt frá þessari ákvörðun hér í góðra vina hópi.“

Íslenska Barnahúsið var fyrsta úrræðið af þessari gerð á Norðurlöndunum þegar það var stofnað árið 1998. Aðrar Norðurlandaþjóðir litu fljótlega til Íslands sem fyrirmyndar og hafa nú allar opnað Barnahús þar sem byggt er á sömu hugmyndafræði og hjá íslenska Barnahúsinu.

Gott dæmi um samstarf Norðurlandaþjóða

Í Svíþjóð hefur hlutverk Barnahúsanna verið útvíkkað þannig að aðstoð og meðferð sem þar er veitt tekur ekki einungis til þolenda kynferðisbrota heldur einnig til barna og ungmenna sem sætt hafa hvers konar öðru ofbeldi eða misnotkun: „Mér finnst þessi sænska leið mjög áhugaverð og eitthvað sem við ættum að skoða hér á landi,“ segir Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra: „Við þurfum að vernda börn gegn öllu ofbeldi og misnotkun og við þurfum að veita þolendum aðstoð og meðferð með því að beita þeim úrræðum og aðferðafræði sem best hefur gefist. Við sjáum hér hvernig íbúar Norðurlandanna hagnast af virku samstarfi þar sem við höfum svo mörgu að miðla og læra hver af annarri.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum