Hoppa yfir valmynd
1. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mótun fjölskyldustefnu til ársins 2020

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað verkefnisstjórn sem falið er að móta fjölskyldustefnu til ársins 2020. Formaður nefndarinnar er Guðrún Valdimarsdóttir hagfræðingur. Einnig verður skipaður samráðshópur til að tryggja breiða aðkomu og samráð hagsmunaaðila við mótun stefnunnar.

Ákvörðun um mótun fjölskyldustefnu byggist á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölskylduvænt samfélag þar sem allir þjóðfélagsþegnar búa við jöfn tækifæri og öryggi og njóta lögvarinna réttinda. Samhliða stefnunni verður lögð fram aðgerðaáætlun.

Við mótun stefnunnar skal meðal annars tekið tillit til mismunandi fjölskyldugerða. Stefna skal að því að tryggja félagslegan jöfnuð, að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað á grundvelli kynþáttar, fötlunar, trúarbragða eða kynhneigðar. Leitað verður leiða til að tryggja efnahagslegt öryggi fjölskyldunnar og öryggi í húsnæðismálum. Unnið verður að því að tryggja jafnvægi á milli fjölskyldu- og atvinnulífs og að jafna ábyrgð foreldra á heimilishaldi og uppeldi barna. Leggja þarf áherslu á að tryggja vernd gegn ofbeldi í nánum samböndum og vernd og stuðning vegna ofneyslu áfengis og annarra fíkniefna.

Við stefnumótunina skal taka mið af gildandi stefnum og áætlunum innan sviðsins. Þá skal vinna samráðshóps um aðgerðaáætlun í málefnum ungs fólks höfð til hliðsjónar eftir atvikum, en hópurinn lauk störfum í apríl síðastliðnum. Stefnan skal innihalda skýra framtíðarsýn, markmið og skilgreindar aðgerðir í aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hver ber ábyrgð á þeim, ásamt tímaáætlun, kostnaðarmati og árangursmælikvörðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum