Hoppa yfir valmynd
4. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjallað um kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðu fólki

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, flutti ávarp á ráðstefnu um kynferðislegt ofbeldi gegn fötluðu fólki sem haldin var í gær. Hún sagði vakningu vera að eiga sér stað í samfélaginu um þessi mál sem beri að nýta. Með umræðu og þekkingu aukist geta til að sporna við ofbeldinu.

Að málþinginu stóðu velferðarráðuneytið, Stígamót, Ás styrktarfélag, Þroskahjálp, Öryrkjabandalag Íslands, Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands, NPA miðstöðin, Reykjavíkurborg, Þroskaþjálfafélag Íslands og Mannréttindaskrifstofa Íslands.

Ráðherra sagði meðal annars í ávarpi sínu:

„Ofbeldi, hvaða nafni sem það nefnist, felur í sér valdbeitingu, kúgun og undirokun. Gerendur eru líklegastir til að beita þá ofbeldi sem síst geta varið sig og því þarf ekki að koma á óvart að börn, fatlað fólk og aldraðir eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Samfélagið hefur lengi verið meðvitað um ofbeldi gagnvart börnum og nauðsyn þess að berjast gegn því með oddi og egg. Í málefnum barna er fyrir hendi mótuð umgjörð um viðbrögð ef grunur er um vanrækslu eða ofbeldi, þótt vissulega megi alltaf gera betur. Þegar í hlut eiga aldraðir eða fatlað fólk stöndum við verr að vígi, hvort sem við horfum til vitundar samfélagsins um vandann eða aðgerðir til að berjast gegn honum. Þessi mál hafa lengi verið falin og í þagnargildi en nú virðist vakning vera að eiga sér stað. Við eigum að nýta okkur það og ýta undir umræðuna - þótt hún sé erfið - til að svipta hulunni af þessum málum og átta okkur á hvað þarf að gera til að bregðast rétt við og koma í framhaldi í veg fyrir ofbeldið.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum