Hoppa yfir valmynd
10. október 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra ávarpaði aðalfund Læknafélags Íslands

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra

Það hefur verið stormasamt í kringum heilbrigðismálin að undanförnu og stóru orðin ekki spöruð sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra á aðalfundi Læknafélags Íslands í dag. „Ég geri ekki lítið úr þeim vanda sem við er að fást en ég óska eftir málefnalegri umfjöllun og legg áherslu á að við tökumst á við þessi viðfangsefni af skynsemi með lausnir að leiðarljósi“ sagði ráðherra meðal annars í ræðu sinni þar sem hann ræddi stöðu heilbrigðismála í víðu samhengi.

Eftirfarandi er ræða Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra:

Góðir fundarmenn.

Það hefur verið heldur stormasamt í kringum heilbrigðismálin að undanförnu, stóru orðin hafa ekki verið spöruð og umræðan að mínu viti verið heldur lausbeisluð á köflum. Ég geri ekki lítið úr þeim vanda sem við er að fást en ég óska eftir málefnalegri umfjöllun og legg áherslu á að við tökumst á við þessi viðfangsefni af skynsemi með lausnir að leiðarljósi.

Við eigum í grunninn gott heilbrigðiskerfi þótt víða megi betur gera. Við getum með eindrægni og samstöðu tekist á við aðsteðjandi verkefni og bætt úr, en úrtölur og upphrópanir geta hins vegar valdið skaða sem erfitt er að bæta. Heilbrigðiskerfið byggist fyrst og fremst á mannauðnum sem innan þess starfar. Ef það er sífellt talað niður með því að einblína á það sem miður fer en látið kyrrt liggja það sem vel er gert og vel gengur þá segir sig sjálft að við steytum á skeri. Svona umræða grefur undan þessum starfsvettvangi, hann verður fráhrindandi og ekki fýsilegt fyrir fólk að ráða sig þar til starfa.

Í viðtali í nýjasta tölublaði Læknablaðsins var ég meðal annars spurður hvort mér finnist heilbrigðiskefið of dýrt. Ég endurtek hér að það finnst mér ekki og ég sé ekki eftir sköttunum mínum í heilbrigðisþjónustuna og það held ég að sárafáir geri. Ég tel hins vegar að við getum farið betur með fjármuni sem við leggjum til kerfisins með betra skipulagi og að því vil ég vinna. Við eigum mikið efni þar sem bent hefur verið á það sem betur mætti fara í heilbrigðiskerfinu og leiðir til úrbóta og ég nefni þar meðal annars niðurstöður greiningar sem ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group kom að og ýmsar skýrslur með tillögum þar sem byggt var á þeirri vinnu.

Heilsugæslan grunnstoðin
Ég hef sagt það margsinnis – og held að flestir taki undir þá skoðun að heilsugæslan á að vera grunnstoð heilbrigðisþjónustunnar sem fyrsti viðkomustaður fólk í kerfinu þegar eitthvað bjátar á. Tillögur liggja fyrir um sameiningu heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem ég tel einboðið að hrinda í framkvæmd þannig að ein stofnun verði í hverju heilbrigðisumdæmi. Markmið sameiningar er að auka möguleika á samstarfi og samnýtingu, kennslu heilbrigðisstétta og öflugri og stöðugri mönnun. Sameining minnkar álag vegna vaktabindingar og einangrunar, rekstrar- og stjórnunareiningar verða sterkari, innkaup verða hagkvæmari og færi skapast fyrir öfluga starfsmannaþjónustu og aukna möguleika á menntun heilbrigðisstarfsfólks sem síðar gæti orðið lykillinn að nauðsynlegri nýliðun í dreifbýlinu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er stór og mikil stjórnsýslueining en starfsstöðvarnar margar og sumar tiltölulega litlar. Það hefur vakið athygli hve mikill munur er á afköstum hjá þessum stöðvum. Hann verður ekki skýrður með ólíkri íbúasamsetningu á upptökusvæðum þeirra. Einnig er athyglisvert hve mikill munur er á kostnaði að baki hverrar heimsóknar sjúklings. Vandinn virðist liggja í skipulaginu en ekki ytri þáttum og því vil ég endurskoða innviðina og einfalda stjórnkerfið. Fjölbreyttari rekstrarform koma einnig til greina þar sem við sjáum að rekstur einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið góða raun, sömuleiðis starfsemi sjálfstætt starfandi heimilislækna og eins virðist vel hafa tekist til með rekstur þessarar þjónustu í höndum sveitarfélaga líkt og á Akureyri og á Hornafirði.

Þjónustustýring
Í flestum löndum sem við berum okkur saman við tíðkast einhvers konar þjónustustýring innan heilabrigðiskerfisins og þykir bæði nauðsynlegt og sjálfsagt stjórntæki. Hér á landi hefur árum saman verið rætt um þjónustustýringu og ýmis rök talin með eða á móti en málið hefur strandað á umræðugrunni árum saman. Ég tel þetta þetta nú fullrætt og rökin með þjónustustýringu yfirgnæfandi. Því mun ég samhliða endurskoðun á skipulagi heilsugæslunnar óska eftir tillögum sem miða að því að stýra flæði sjúklinga milli heilsugæslu, sérfræðinga og sjúkrahúsa. Það þarf vart að taka fram að undirbúningur að svona breytingum verður ekki unninn án samráðs við fagfólk en ég vil við þetta tækifæri ítreka þann vilja minn.

Nýr Landspítali – forgangsröðun - Sjúkrahótel
Það verður ekki vikist undan því að ræða málefni Landspítala á fundi sem þessum og af nógu er að taka. Húsnæðismál Landspítala eru raunverulegt vandamál og ég veit að margir horfa til þess að framkvæmdir hefjist við byggingu Nýs Landspítala. Ég skil þetta viðhorf en minni á að brýn viðfangsefni eru mörg, fjármagn skortir og því verðum við að forgangsraða á skynsamlegan máta og fara hægar í sakirnar en að var stefnt.

Í fjárlagafrumvarpinu liggur fyrir ákvörðun um að verja fé til að ljúka fullnaðarhönnun sjúkrahótels á Landspítalalóðinni. Hönnun á að ljúka 2015 og þá er stefnt að því að hefja framkvæmdir sem verði lokið að fullu árið 2017. Ég vil þó leggja áherslu á að hér er um að ræða langstærsta fjárfestingarverkefni sem hið opinbera hefði nokkurn tímann ráðist í og einnig er ljóst að það gæti líka haft afgerandi áhrif á þróun rekstrarkostnaðar við heilbrigðiskerfið. Slík áform kalla á að fram fari vönduð greiningarvinna að hálfu stjórnvalda í tengslum við viðeigandi stefnumörkun en ekki einungis út frá sjónarhóli þeirra sem mundu starfa í nýjum húsakosti eða annast um byggingu hans. Ljóst er að verkefni af þessari stærðargráðu rúmast ekki innan núverandi ríkisfjármálaáætlunar, hvorki til skemmri tíma litið hvað varðar markmið um að ná afgangi á heildarafkomu ríkissjóðs né til lengri tíma litið hvað varðar markmið um að sá afgangur fari vaxandi og dugi til að lækka skuldabyrði hins opinbera umtalsvert, eða a.m.k. 60% á innan við áratug.

Tækjakaupaáætlun
Framlög til tækjakaupa á Landspítala hafa lengi verið lægri en nauðsyn krefur og á árunum 2006–2013 lækkaði föst fjárveiting til tækjakaupa á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akueyri um nærri helming að raungildi. Við svo búið má ekki standa. Ég hef lýst því yfir ásamt fjármálaráðherra að gerð verði áætlun um tækjakaup fyrir sjúkrahúsin til ársins 2017. Áætlunin verður unnin í samráði við starfsfólk Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri og kynnt ríkisstjórn og fjárlaganefnd fyrir 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins.

Lyflækningasvið Landspítala – opnun Vífilsstaða
Þann 12. september síðastliðinn undirritaði ég ásamt Birni Zoëga, þáverandi forstjóra Landspítala, yfirlýsingu um aðgerðir til að bæta stöðu lyflækningasviðsins. Fyrirhugaðar aðgerðir snúa að því að draga úr álagi á starfsemi sviðsins, bæta möguleika til þess að útskrifa sjúklinga af deildinni að lokinni meðferð, styrkja faglega forystu og rekstrarlega ábyrgð, auk aðgerða til að efla framhaldsmenntun og stuðla að nauðsynlegri nýliðun í lyflækningum. Áfram verður unnið að því að styrkja og efla bráðastarfsemi spítalans með því að koma henni undir eitt þak. Í tengslum við þetta er hafinn undirbúningur að opnun Vífilsstaða með rúmlega fjörutíu hjúkrunarrýmum. Miðað er við 136 milljóna króna aukafjárveitingu Alþingis til verkefnisins á þessu ári og 349 milljónum króna til rekstrarins samkvæmt fjárlagafrumvarpin næsta árs. Opnun Vífilsstaða ætti að geta orðið að veruleika innan skamms.

Heildstætt greiðsluþátttökukerfi
Áform um legugjald hjá sjúklingum hafa valdið töluverðum úlfaþyt að undanförnu. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þau mál hér, en verð þó að segja að það er vandséð réttlætið í því að sjúklingar í göngudeildarþjónustu greiði fyrir rannsóknir, aðgerðir og aðra læknisþjónustu, jafnvel háar fjárhæðir á ári en sé fólk lagt inn falli greiðslur niður. Fyrst og fremst vil ég ná böndum á greiðslur sjúklinga og koma á skynsamlegra og réttlátara kerfi sem mismunar ekki fólki á þennan hátt. Skipuð hefur verið nefnd til að undirbúa tillögur um að fella læknis-, lyfja-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan heilbrigðiskostnað undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttar- fyrirkomulag þannig að þátttaka borgarans í heilbrigðiskostnaði verði takmörkuð hvort sem kostnaður fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu.

Góðir fundarmenn.

Eins og ég sagði í upphafi hafa mér þótt umræður um heilbrigðismál og vanda heilbrigðiskerfisins nokkuð glannalegar á köflum og það finnst mér ekki síst þegar rætt er um landflótta fagfólks og launamál. Síðastliðinn sunnudag var uppsláttarfréttin hjá RÚV viðtal við framkvæmdastjóra Hvítra sloppa sem útvegar íslenskum læknum atvinnu í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndunum. Haft var eftir honum að mörg hundruð íslenskir læknar starfi í útlöndum og fari sífellt fjölgandi. Starfsumhverfi og húsnæðisvandi eigi sinn þátt í því en launin skipti þó meira máli en menn vilji vera láta. Í viðtalinu sagði framkvæmdastjórinn að engir læknar fáist hingað heim á þeim kjörum sem nú séu í boði, enda aðeins brotabrot af því sem boðið er erlendis. Vísaði hann svo til þess að „hafa nýlega vegna forfalla boðið 500.000 kr. fyrir vaktir á fimmtudegi og föstudegi með vakt til tíu um kvöldið annan daginn.“ Jafnframt var haft eftir honum að opna þurfi kerfið á Íslandi fyrir verktöku, að læknar þurfi að fá að auglýsa og að fá þurfi lækna hingað heim á verktakalaunum. Og orðrétt fylgdi í kjölfarið að: „það þurfi að bjarga því sem sé í rúst núna eða komið fram af bjargbrúninni.“

Hér gengu gífuryrðin fram af mér. Það er ekkert nýtt að íslenskir læknar starfi erlendis og við vitum að margir sem fara í sérfræðinám úti ílengjast þar – sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt. Auðvitað viljum við halda í lækna og annað fagfólk og laða það til starfa og það tel ég að við getum gert með ýmsu móti. Ég sé á hinn bóginn ekki fyrir mér að við munum í náinni framtíð greiða hálfa milljón króna fyrir tveggja daga vinnu, slíkt er hvorki raunhæft né skynsamlegt.

Ég er algjörlega reiðubúinn að skoða fjölbreyttara rekstrarform í heilbrigðiskerfinu og vinna að bættum starfsskilyrðum og betra skipulagi, en það verður að vera einhver skynsemi í framkvæmdinni. Ég ætla mér ekki að opna fyrir einhverja krana með handahófskenndri verktöku. Ríkið á að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustu í landinu líkt og lög kveða á um en það er alveg hægt að fela einstaklingum og fyrirtækjum að sinna ákveðnum þáttum fyrir hönd ríkisins. Það þarf hins vegar að skilgreina vandlega hvaða þjónustu ríkið ætlar að kaupa, tryggja eftirlit með gæðum og öryggi hennar og standa fast á því grundvallarsjónarmiði að landsmenn allir eigi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustunni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum