Hoppa yfir valmynd
16. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnuleysi mælist 2,8% á landsbyggðinni en 3,8% á landsvísu

Á vinnustað
Á vinnustað

Skráð atvinnuleysi í september var 3,8% á landsvísu samkvæmt skrám Vinnumálastofnunar en mældist þá 2,8% á landsbyggðinni. Hratt dregur úr atvinnuleysi á Suðurnesjum sem mældist 5,4% í september síðastliðnum á móti 7,8% á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi er töluvert meira meðal kvenna (4,4%) en karla (3,2%). Aftur á móti dregur saman með kynjunum því sé litið til fyrri mánaðar helst hlutfall atvinnulausra karla óbreytt en mældist 4,8% hjá konum í ágúst.

Eins og áður mælist atvinnuleysi mest á Suðurnesjum en minnst á Norðurlandi vestra þar sem það er 0,8%. Nokkuð dró úr atvinnuleysi í september miðað við ágústmánuð eða um 0,2 prósentustig.

Í samantekt Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði í september má sjá upplýsingar um fjölda þeirra sem í september tóku þátt í vinnumarkaðsúrræðum, fjölda útlendinga á atvinnuleysisskrá, fjölda þeirra sem skráðir voru atvinnulausir en í hlutastörfum og upplýsingar um atvinnuleitendur sem voru í námi, stunduðu námskeið eða tóku þátt í grunnúrræðum og atvinnutengdum úrræðum í september.

Yfirleitt eykst atvinnuleysi milli september- og októbermánaðar. Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir því að þróunin verði ekki ólík þróuninni í fyrra. Skráð atvinnuleysi muni því aukast og verði á bilinu 3,94,2%.

Góð staða Íslands í alþjóðlegum samanburði
Hagstofa Íslands birtir reglulega tölur um atvinnuástand. Stofnunin byggir upplýsingar sínar á vinnumarkaðsrannsóknum þar sem úrtakið er valið af handahófi úr þjóðskrá. Nýjustu upplýsingar Hagstofunnar eru um stöðuna í ágúst og mældist atvinnuleysi þá 4,4%.

Mælingar Hagstofunnar byggjast á sömu aðferðum og þær upplýsingar sem Eurostat (Hagstofa Evrópusambandsins) birtir um atvinnuástand þjóða. Samkvæmt upplýsingum Eurostat sem birtar voru í byrjun þessa mánaðar var meðaltal atvinnuleysis í löndunum sautján sem mælingin tekur til 12,0% í ágúst síðastliðnum og var þá búið að leiðrétta fyrir árstíðabundnum sveiflum. Ísland var þarna í þriðja sæti landa með minnst atvinnuleysi á eftir Austurríki og Þýskalandi, en rétt er að taka fram að tölur frá Noregi vantaði í þessa úttekt.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum