Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Áhersla lögð á samræmd innkaup velferðarstofnana og lækkun kostnaðar

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Ríkisendurskoðun fagnar viðleitni velferðarráðuneytisins til úrbóta á sviði innkaupamála sem fram kemur í innkaupastefnu og framkvæmdaáætlun ráðuneytisins frá árinu 2012. Markmið ráðuneytisins er að veita stofnunum sínum leiðsögn sem stuðlar að samræmi, ábyrgum innkaupum, gagnsæi og lækkun kostnaðar.

Ríkisendurskoðun gaf út skýrsluna; Innkaupastefna ráðuneyta, í febrúar árið 2010 þar sem fjallað var um fylgni þeirra við innkaupastefnu ríkisins, áherslur hennar og markmið. Meðal annars var kannað hvort þau hefðu skilgreint innkaupastefnu fyrir sig og stofnanir sínar og hvort þau beittu henni sem virku stjórn- og eftirlitstæki. Ríkisendurskoðun beindi ábendingu til allra ráðuneytanna þar sem þau voru hvött til að leggja aukna áherslu á innkaupamál í í starfsemi sinni og stofnana sinna og einnig hvött til að beita innkaupastefnunni sem virku stjórn- og eftirlitstæki, jafnt í eigin störfum sem í samskiptum við stofnanir sínar.

Ríkisendurskoðun hefur nú birt skýrslu þar sem fylgt er eftir þeim ábendingum sem stofnunin setti fram í skýrslu sinni árið 2010 og fjallað um hvernig ráðuneytin hafa brugðist við til að efla sig á sviði innkaupamála. Þar segir um viðbrögð velferðarráðuneytisins:

 „Í þessu sambandi vekur sérstaka athygli „Stefnumörkun í innkaupamálum velferðarþjónustunnar. Ný innkaupastefna og tillögur að framkvæmdaáætlun“ sem velferðarráðuneyti lagði fram í júní 2012. Þar er m.a. brugðist við því vandamáli að samræmi hefur skort í innkaupum velferðarstofnana, að of lágt hlutfall innkaupa þeirra hefur  farið gegnum rammasamningakerfi Ríkiskaupa og að of fáar stofnanir hafa innleitt kerfi rafrænna innkaupa. Ríkisendurskoðun fagnar þessari viðleitni ráðuneytisins, jafnt framkvæmdaáætlun þess sem skal miða að því að lækka kostnað velferðarstofnana vegna innkaupa og þeim leiðbeiningum sem það gefur stofnunum í innkaupastefnu sinni, m.a. um bestu kaup, samræmd innkaup, siðareglur um innkaup, innkaup notuð sem fjárhagslegt stjórntæki, vistvæn innkaup, rafræn innkaup, ábyrgð og gagnsæi og menntun og sérhæfingu.“

Í skýrslunni árið 2010 benti Ríkisendurskoðun á að sífellt fleiri opinberar stofnanir, bæði hér á landi og erlendis vísi til siðferðilegra viðmiðana í innkaupareglum sínum til að tryggja sem best gagnsæi, jafnræði, heiðarleika og trúnað. Í slíkum reglum sé meðal annars bent á að persónulegar ástæður eða persónulegur ávinningur megi ekki ráða vali á vörum, birgjum eða þjónustu, að ekki megi mismuna aðilum vegna ómálefnalegra sjónarmiða og að allar upplýsingar um innkaup skuli vera uppi á borðinu eftir því sem kostur er. Velferðarráðuneytið setti fram almennar siðareglur um innkaup í innkaupastefnu sinni árið 2012, líkt og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar um viðbrögð ráðuneyta við ábendingum stofnunarinnar frá árinu 2010.

 

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum