Hoppa yfir valmynd
24. janúar 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkraflutningar: Ráðherra ítrekar ósk um samningaviðræður

Sjúkrabifreið
Sjúkrabifreið

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra harmar ákvörðun stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) um að slíta samstarfi um sjúkraflutninga sem hann segir hafa verið farsælt og hagstætt fyrir alla aðila. Í bréfi ráðherra til stjórnar SHS ítrekar hann ósk um samningaviðræður til að tryggja áframhaldandi samstarf.

Í bréfi ráðherra kemur fram að eitt fyrsta embættisverk hans sem heilbrigðisráðherra hafi verið að óska eftir viðræðum við stjórn SHS um gerð nýs samnings um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu. Þeirri beiðni hafi verið hafnað með vísan til þess að þegar lægi fyrir samningur milli velferðarráðuneytisins og SHS. Í bréfinu bendir ráðherra á að þetta sé ekki rétt. Skrifað hafi verið undir samkomulagsgrundvöll af fulltrúum fyrrverandi velferðarráðherra 1. febrúar 2013 sem hvorki hafi verið staðfestur af hálfu fyrrverandi ríkisstjórnar né núverandi og því á engan hátt falið í sér skuldbindingu af hálfu stjórnvalda.

Heilbrigðisráðherra tekur undir með stjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um að aðskilnaður sjúkraflutninga og slökkvistarfs á höfuðborgarsvæðinu sé óskynsamlegur, hvort sem litið sé til fjárhagslegra eða faglegra þátta. Hann bendir einnig á að ákvörðun stjórnar SHS um slit á samstarfi um sjúkraflutninga snerti öryggi allra íbúa höfuðborgarsvæðisins og því sé mikilvægt að hún sé hluti af pólitískri stefnumörkun sveitarstjórna hverrar um sig og ekki síður sameiginlega á vettvangi SSH.

Í bréfi ráðherra til stjórnar SHS segir enn fremur:

„Almennt traust og ánægja er meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins með þá þjónustu sem SHS hefur veitt með sjúkraflutningum. Um það deilir enginn að mikilvægt er, jafnt fyrir íbúa og starfsmenn SHS, að eyða þeirri óvissu sem ríkir um fyrirkomulag sjúkraflutninga til framtíðar. Því ítrekar undirritaður einlægan vilja af hálfu velferðarráðuneytisins að ganga til samninga við stjórn SHS. En til þeirra samninga getur undirritaður ekki gengið með bundnar hendur af hálfu fyrri ríkisstjórnar og samkomulagsgrundvelli sem aldrei hefur verið staðfestur, hvorki af núverandi né fyrri ríkisstjórn, líkt og stjórn SHS hefur krafist.

Með vísan til framanritaðs er enn sett fram ósk til stjórnar SHS og nú einnig til sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu um að stjórn SHS eða fulltrúar hennar komi að gerð nýs samnings um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.“

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum