Hoppa yfir valmynd
29. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fækkun stöðugilda og fleiri aðgerðir til að mæta aðhaldskröfu fjárlaga

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Starfsfólki velferðarráðuneytisins voru í dag kynntar þær aðgerðir sem ráðist verður í til að draga saman rekstrarútgjöld ráðuneytisins í samræmi við 5% aðhaldskröfu fjárlaga. Stærstur hluti rekstrarkostnaðar ráðuneytisins er launakostnaður og því eru fækkun stöðugilda og uppsagnir óhjákvæmilegar ásamt öðrum aðhaldsaðgerðum.

Breytingarnar munu hafa áhrif á störf um 20 starfsmanna ráðuneytisins. Stöðugildum fækkar alls um sjö, að hluta til með lækkun á starfshlutfalli en einnig með uppsögnum starfsfólks. Rætt hefur verið við starfsfólk sem komið er með rétt til lífeyris um að flýta starfslokum.

Tímabundnar stöður verða ekki framlengdar og ekki verður ráðið í stöður fólks sem hættir nema það sé óhjákvæmilegt. Stefnt er að því að draga úr aðkeyptri sérfræðiþjónustu, sagt verður upp leigu á hluta af húsnæði ráðuneytisins, dregið úr kostnaði vegna utanlandsferða í tengslum við alþjóðlegt samstarf og útgjöld spöruð í öllum öðrum rekstrarþáttum eftir því sem nokkur kostur er.

Áætlað er að aðgerðir ráðuneytisins til að mæta aðhaldskröfu ársins 2014 skili 55 milljónum króna á þessu ári.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum