Hoppa yfir valmynd
13. febrúar 2014 Forsætisráðuneytið

Karlar áhugasamir um að auka hlut sinn í „kvennastörfum“

Þátttakendur í pallborðsumræðum
Þátttakendur í pallborðsumræðum

Hátt í 100 manns sátu fund aðgerðahóps um launajafnrétti kynja á Grand Hótel Reykjavík í dag þar sem rætt var um leiðir til að fjölga körlum í umönnunar- og kennslustörfum á íslenskum vinnumarkaði. Í norrænum samanburði er hlutur karla í þessum störfum áberandi minnstur hér á landi.

Eitt verkefna aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins er gerð framkvæmdaáætlunar um uppbrot kynskipts vinnumarkaðar. Fundurinn í dag er fyrri fundurinn af tveimur um þetta efni. Karlar voru á dagskrá þessa fundar en þann 26. febrúar verður rætt um aukinn hlut kvenna í hefðbundnum karlastörfum.

Kynskiptur vinnumarkaður skerðir atvinnumöguleika

Eygló Harðardóttir, félags og húsnæðismálaráðherra, hóf fundinn með ávarpi þar sem hún benti á hvernig Norðurlandaþjóðirnar fóru að gefa þessum málum meiri gaum í kjölfar kreppunnar, ekki síst í ljósi þess hve skyndilega stóraukið atvinnuleysi kom misjafnlega niður á kynjunum: „Hrun í atvinnugreinum þar sem karlar voru nær allsráðandi opnaði augu margra fyrir því að kynskiptur vinnumarkaður er alvarleg hindrun sem stendur í vegi fyrir nauðsynlegum sveigjanleika á vinnumarkaði og skerðir atvinnumöguleika fólks.“

Það þarf aðgerðir og stefnu

Meðal fundarmanna var samhljómur um að nú sé tími aðgerða runninn upp. Bent var á að allar upplýsingar og greiningar á stöðunni liggi fyrir. Á liðnum árum hefði verið ráðist í ýmis átaksverkefni en þrátt fyrir það hefði hlutur karla í umræddum störfum hér á landi lítið sem ekkert aukist síðastliðna áratugi. Átaksverkefni duga ekki til sögðu fundarmenn, heldur þarf framtíðarsýn, og markvissar aðgerðir sem byggja á langtímaáætlunum til að breyta þessu.

Jafnræði kynja í störfum er gæðamál
Á fundinum var einnig rætt um að jafnræði með kynjum í öllum starfsgreinum eigi að nálgast sem gæðamál. Þetta séu iðulega störf sem kalla á mikil samskipti við almenning; fólk á öllum aldri, börn, fullorðna og aldraða, drengi og stúlkur, karla og konur. Ráðherra kom einnig inn á þetta í erindi sínu og sagði að meira jafnræði kynja hlyti að vera æskilegra allra hluta vegna þegar kemur að því að móta og veita þá þjónustu sem um ræðir og eins gagnvart þeim sem sækja sér þjónustuna.

Mikilvægir brautryðjendur

Ólafur G. Skúlason, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sagði í pallborðsumræðum að í stétt þar sem einungis 2% félagsmanna eru karlmenn, líkt og í félaginu hans, skorti augljóslega fyrirmyndir. Ingólfur V. Gíslason lektor í félagsfræði kom einnig inn á þetta og lagði áherslu á að brautryðjendur í hópi karla sem velja sér óhefðbundinn starfsvettvang gegni mikilvægu hlutverki fyrirmynda og geti lagt mikið af mörkum til að hvetja aðra karla inn á nýjar brautir, til dæmis með því að leggja lið kynningu á námsbrautum og störfum sem karlar hafa hingað til gefið lítinn gaum.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum