Hoppa yfir valmynd
14. febrúar 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra fagnar góðum samningi við sjúkraþjálfara

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýjan rammasamning Sjúkratrygginga Íslands og sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara og sett reglugerð honum fylgjandi. Ráðherra segir samninginn góðan fyrir notendur þjónustunnar og að samningsaðilar megi jafnframt vel við una.

Samningurinn er að meginefni byggður á þeim samningsgrundvelli sem áður lá fyrir en ákveðnar breytingar hafa verið gerðar sem fela í sér nýjungar. Skiptir þar mestu að vægi hópmeðferða og einfaldra meðferða er aukið. Markmiðið er að draga úr dýrari einstaklingsmeðferð þegar unnt er að beita ódýrari meðferðaraðferðum með sambærilegum árangri.

Helstu breytingar og áherslur samningsins og nýju reglugerðarinnar eru:

  • Hækkun á taxta um 2,8%.
  • Sjúkratryggingar Íslands greiða allt að sex skipti á ári í sjúkraþjálfun án þess að fyrir liggi beiðni frá lækni.
  • Gjaldskrárliðum er fjölgað. Sem dæmi má nefna nýjan lið fyrir hópmeðferðir í minni hópum en markmiðið er að efla hópmeðferð og draga þannig úr einstaklingsmeðferðum.
  • Frá og með næsta þjálfunartímabili munu almennir notendur þjónustunnar (aðrir en aldraðir, öryrkjar og börn) greiða fullt verð fyrir fyrstu fimm meðferðarskiptin. Eftir það helst kostnaðarþátttaka þeirra óbreytt, sbr. reglugerð nr. 1189/2013. Þjálfunartímabil er 365 dagar og er upphaf þess talið frá fyrsta meðferðarskipti.

 Nánar á vef Sjúkratrygginga Íslands


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum