Hoppa yfir valmynd
3. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Áhugaverðar upplýsingar um velferðarmál í nýju norrænu riti

Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org
Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org

Margvíslegar og áhugaverðar tölfræðiupplýsingar á sviði félagsmála koma fram í ársritinu; Social tryghet i de nordiske lande 2013, sem er nýlega komið út og gefur möguleika á að bera saman stöðu ýmissa mála milli Norðurlandaþjóðanna.

Ritið er aðgengilegt á sameiginlegri vefsíðu norrænu nefndanna NOSOSKO og NOMESKO sem fjalla um staðtölur og hagtölur á sviði félags- og heilbrigðismála; www.nowbase.org. Í ritinu kemur meðal annars fram að feður á Norðurlöndunum taka í vaxandi mæli þátt í umönnun barna sinna með því að taka fæðingarorlof. Þróun og fyrirkomulag fæðingarorlofs er þó ólíkt milli landanna (sjá töflu 3.7).  Í þeim efnum eiga íslenskir feður vinninginn því á engu hinna Norðurlandanna hefur hlutur feðra sem tekur fæðingarorlof aukist jafn mikið og hérlendis. 

Í ritinu má finna ýmislegt forvitnilegt og gagnlegt um stöðu Íslands á sviði velferðarmála og hér eru nefnd nokkur atriði:

  • Íslendingar eru í mun ríkari mæli á vinnumarkaði en jafnaldrar þeirra annars staðar á Norðurlöndunum þegar aldurinn færist yfir (mynd 2.3 og 2.4).
  • Einhleypir Íslendingar 65 ára og eldri lifa síður undir lágtekjumörkum en jafnaldrar þeirra á Norðurlöndunum (tafla 2.5).
  • Íslenskar konur eru mun líklegri en karlar til að vera einstætt foreldri en konur annars staðar á Norðurlöndunum (tafla 3.2).
  • Hvergi á Norðurlöndunum nema á Íslandi eru barnabætur tekjutengdar (tafla 3.11)
  • Börn á Íslandi og í Færeyjum eiga ekki rétt á leikskóladvöl samkvæmt lögum en hjá hinum Norðurlandaþjóðunum er þessi réttur bundinn í lög (tafla 3.15).
  • Í samanburði milli Norðurlandaþjóðanna er hæst hlutfall fólks á aldrinum 16–64 ára í launavinnu á Íslandi, eða 81,9%  (tafla 4.2)

Þetta og margt fleira má lesa um í Social tryghet i de nordiske land 2013. Ritið verður einnig gefið út á ensku og birt á síðunni innan tíðar. Af útgefnu efni á vefsíðunni má einnig nefna  útgáfu ársrits um heilbrigðistölfræði, áskoranir norrænna velferðarþjóðfélaga og um atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndunum, svo eitthvað sé nefnt. 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum