Hoppa yfir valmynd
14. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Réttindi hinsegin fólks í Evrópu: Ísland í 9. sæti

Regnbogafánar á Möltu
Regnbogafánar á Möltu

Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA- Europe), birtu úttekt á stöðu og réttindum hinsegin fólks í Evrópu í gær á Möltu í tilefni alþjóðabaráttudags gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki. Staða hinsegin fólks er afar mismunandi milli Evrópuþjóða. Samkvæmt úttektinni er hún best í Bretlandi en verst í Rússlandi. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tekur þátt í fundi um réttindi hinsegin fólks, IDAHO-Forum 2014, sem nú stendur yfir á Möltu.

Evrópusamtökin birta regnbogakort sem sýna lagalega stöðu hinsegin fólks, úttekt á stefnu stjórnvalda á sviði jafnréttismála, aðgerðir stjórnvalda gegn mismunun, hatursorðræðu og ofbeldi gagnvart hinsegin fólki o.fl. og tekur kortið til 49 Evrópulanda. Gefin er einkunn á skalanum 0-100. Samkvæmt úttektinni hlýtur Ísland 64 stig af 100 möguleikum og er í níunda sæti í Evrópu, á pari við Svíþjóð og Frakkland. Réttarstaða hinsegin fólks á Íslandi hefur tekið framförum frá síðustu mælingu en þá hlaut Ísland 56 stig og var í tíunda sæti. Staða hinsegin fólks í Evrópu er mjög misjöfn og fær Bretland hæstu einkunnina, 82 en Rússland fær sex stig.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði nýlega nefnd um málefni hinsegin fólks, í samræmi við ályktun Alþingis frá 15. janúar síðastliðnum. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur að samþættri aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu og verður úttekt ILGA-Europe höfð til hliðsjónar í þeirri vinnunn.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum