Hoppa yfir valmynd
4. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ráðstefna um fjölskyldustefnur og velferð barna

Börn
Börn

Fjölskyldustefnur og velferð barna er yfirskrift norrænnar ráðstefnu sem haldin verður í Reykjavík 5. september. Fjallað verður um fjölskyldustefnur fyrr og nú og tengsl við fátækt meðal barna á Norðurlöndunum, velferðarþjónustu í nærumhvefi og mikilvægi samráðs við ákvarðanatökur á opinberum vettvangi. Bein vefútsending verður frá ráðstefnunni.

Ráðstefnan er hluti af dagskrá vegna formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2014. Farið er yfir þætti sem miða að því að auka velferð barna og barnafjölskyldna og helstu viðfangsefni í málefnum fjölskyldunnar sem stjórnvöld á Norðurlöndunum hafa staðið frammi fyrir og viðbrögð við þeim. Fjallað verður um forvarnir og hvernig styrkja má þjónustu í nærumhverfi. Loks verður horft til framtíðar þar sem Guðrún Valdimarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í málefnum barna og barnafjölskyldna, segir frá vinnu við gerð þingsályktunartillögu um fjölskyldustefnu og aðgerðaáætlun með áherslu á börn. Vinna við stefnumótunina hófst um mitt síðasta ár og er langt komin.

Efni ráðstefnunnar skiptist í þrjá þætti sem hverjum lýkur með pallborðsumræðum. Að lokinni setningu og ávarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, verður fjallað um stefnur og stuðning við börn og barnafjölskyldur. Þar fjallar Tapio Salonen, prófessor í félagsráðgjöf við Háskólann í Malmö, um fjölskyldustefnur og fátækt meðal barna á Norðurlöndunum. Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, ræðir síðan um börn og fátækt á Íslandi, einkenni og skýringar og að því búnu flytur Mona Sandbæk, prófessor í félagsráðgjöf við Háskólann í Ósló, erindi sem heitir; Í leit að Evrópustefnu sem styður við börn og foreldra.

Annar hluti ráðstefnunnar fjallar um forvarnir og fjölskylduvelferð. Erindi flytja Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar, og Ingibjörg Sveinsdóttir, sálfræðingur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Í þriðja hluta ráðstefnunnar verður fjallað um fjölskyldustefnu á Íslandi og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Fyrirlesarar eru Guðný Björk Eydal, prófessor við Háskóla Íslands, Petrína Ásgeirsdóttir, félagsráðgjafi og Guðrún Valdimarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar um mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í málefnum barna og barnafjölskyldna. Auk þeirra fjalla Herdís Ágústa Kristjánsdóttir Linnet og Sara Líf Sigsteinsdóttir, frá ungmennaráðum Barnaheilla og UNICEF á Íslandi, og Kristinn Jóhannsson, ráðgjafahópi Umboðsmanns barna, um mikilvægi þess að hlusta á börn.

  • Ráðstefnan fer fram á ensku
  • Sýnt verður beint frá ráðstefnunni á vef velferðarráðuneytisins. Útsendingin hefst kl. 9.00.
  • Dagskrá og nánari upplýsingar

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum