Hoppa yfir valmynd
3. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Um skipulag félagsþjónustu og barnaverndarmála vegna yfirlýsingar starfsfólks Barnaverndarstofu

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Eftirfarandi eru viðbrögð félags- og húsnæðismálaráðherra um skipulag félagsþjónustu og barnaverndarmála vegna yfirlýsingar starfsfólks Barnaverndarstofu:

Barnaverndarstofa bregst hart við í yfirlýsingu í dag þar sem starfsfólk stofnunarinnar virðist gefa sér niðurstöður í umfangsmikilli endurskipulagningu á stjórnsýslu barnaverndarstarfs og félagsþjónustu í landinu sem nú er að hefjast. Markmiðið er að draga skýrari skil milli stjórnsýslu og eftirlits annars vegar og þjónustu hins vegar í samstarfi við sveitarfélögin og samtök þeirra. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga kann að verða hluti niðurstöðu þessarar endurskipulagningar þegar þar að kemur.

Eftirliti með félagsþjónustu er áfátt og einnig hefur velferðarráðuneytið vegna gagnrýni á það að Barnaverndarstofa annast bæði þjónustverkefni og eftirlit með barnavernd þurft að taka yfir eftirlit með þessum úrræðum. Félags- og húsnæðismálaráðherra véfengir hvorki fagleg vinnubrögð starfsfólks Barnaverndarstofu né starfsmanna félagsþjónustu sveitarfélaganna. Það er hins vegar alveg ljóst að margt er lýtur að skipulagi þessara mála þarfnast endurskoðunar og  breytinga.

Nefnd á vegum ráðherra hefur verið skipuð og er henni ætlað að vinna að tillögugerð á þessu sviði. Stefnt er að því að nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir páska.
Vinna við endurskoðun og endurskipulagningu er því að hefjast. Engar ákvarðanir hafa verið teknar. Barnaverndarstofu hefur verið boðið að taka þátt í þessari vinnu og því vekur furðu að samráðsleysi sé gagnrýnt í yfirlýsingu starfsmanna.

Mikilvægt er að vinna við endurskoðun stjórnsýslu á sviði félagsþjónustu og barnaverndar fari faglega fram í samvinnu við helstu hagsmunaaðila og ítarleg umræða fari fram um málið þegar niðurstöður nefndarinnar liggja fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum