Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Barnafátækt í Evrópu næstminnst á Íslandi árið 2012

Hlutfall barna sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum í Evrópu 2012
Hlutfall barna sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum í Evrópu 2012

Hlutfall barna á aldrinum 0–17 ára sem búa á heimilum undir lágtekjumörkum var 10% á Íslandi árið 2012 og þar með næstlægst í Evrópu á eftir Noregi. Á sama tíma var hlutfallið í löndum Evrópusambandins 20,7% að meðaltali. Þetta kemur fram í nýjum Félagsvísum Hagstofunnar um börn og fátækt.

Félagsvísar eru safn tölulegra upplýsinga um velferð, efnahag, heilsufar og félagslegar aðstæður íbúa í landinu og má rekja tilurð þeirra til vinnu velferðarvaktarinnar sem hófst árið 2009. Hagstofan annast uppfærslu og birtingu félagsvísa samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið. Vísarnir draga upp mynd af þróun samfélagsins og lífsgæðum landsmanna og auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þjóðfélagsþróun og samfélagsbreytingum.

Börn og ungir foreldrar

Í nýútkomnum félagsvísum um börn og fátækt kemur fram að hlutfall barna á heimilum undir lágtekjumörkum og algengi þess að börn búi við skort á efnislegum gæðum var svipað árin 2010–2013 og það var á árunum 2004–2007. Börn sem eiga foreldra 29 ára eða yngri búa oftar á heimilum sem eru undir lágtekjumörkum og skortir efnisleg gæði en þau börn þar sem að minnsta kosti annað foreldrið er 30 ára eða eldra. Á meðal fyrri hópsins eru 36,5% undir lágtekjumörkum og 17,8% búa við skort á efnislegum gæðum.

Börn og einstæðir foreldrar

Árið 2013 voru 30,8% barna einstæðra foreldra undir lágtekjumörkum og 25% skorti efnisleg gæði. Til samanburðar voru 6,2% barna á heimili með tveimur fullorðnum undir lágtekjumörkum og um 4,1% þeirra skorti efnisleg gæði.

Einstæðir foreldrar eru líklegri en aðrir til að búa í leiguhúsnæði og má sjá sterka fylgni með búsetuformi og fátækt barna. Árið 2013 voru 28,2% barna sem bjuggu í leiguhúsnæði undir lágtekjumörkum og 20,6% skorti efnisleg gæði. Stærstur hluti barna á Íslandi býr á heimilum sem eru með húsnæðislán og eru 7,5% þeirra barna eru undir lágtekjumörkum og 5% skortir efnisleg gæði.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum