Hoppa yfir valmynd
17. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

MST fjölkerfameðferð verður veitt um allt land.

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt Barnaverndarstofu aukið fjármagn sem gerir henni kleift að veita svokallaða MST fjölkerfameðferð um allt land. Úrræðið er ætlað fjölskyldum 12–18 ára barna sem glíma við alvarlegan hegðunarvanda á mörgum sviðum. Til þessa hefur það einungis staðið til boða á þjónustusvæði í um 100 km radíus frá Reykjavík.

Sem dæmi um hegðunarvandamál sem fengist er við með MST fjölkerfameðferð má nefna mikla erfiðleika í skóla, skróp, ofbeldishegðun og vímuefnanotkun. MST meðferðin snýr að öllu nærumhverfi barnsins, þ.e. foreldrum, fjölskyldu, félagahópi, skóla og tómstundum. Almennt er markmið meðferðar að bæta samskipti og samheldni innan fjölskyldunnar, tengsl og samráð foreldra og skóla og annarra lykilaðila í umhverfi barnsins.

Meðferðina veita sérfræðingar, þ.e. MST-þerapistar sem hitta foreldra og barnið sem á í hlut inni á heimili fjölskyldunnar eftir samkomulagi. Foreldrar eiga jafnframt aðgang að símaráðgjöf MST-þerapista allan sólarhringinn. Meðferðin er löguð að þörfum hverrar fjölskyldu, sett eru markmið og skipulagðar leiðir að þeim og árangurinn metinn reglulega. Alla jafna er meðferðartíminn 3–5 mánuðir.

Fjölskyldur í vanda njóti jafnræðis

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að þjónusta á borð við MST-fjölkerfameðferðina við börn og foreldra í vanda geti skipt sköpum og því verði skilyrðislaust að tryggja þeim aðgang að henni sem þurfa, óháð búsetu: „Þetta er þjónusta sem aðeins er hægt að veita í nærumhverfi barnsins og góður árangur meðferðarinnar byggist einmitt á því. Fjölskyldur í þessum vanda eiga að njóta jafnræðis hvar á landinu sem þær búa sem er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að jafna búsetuskilyrði allra landsmanna.“

Til að byrja með verður bætt við einu stöðugildi MST-þerapista sem verða þar með níu á landsvísu sem starfa í tveimur teymum. Þegar frá líður er áformað að bæta við öðru stöðugildi. Þerapistarnir munu sinna verkefnum um allt land og fara á milli staða eftir þörfum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum