Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samningur við Reykjavíkurborg um móttöku og aðstoð við flóttafólk

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík,  undirrituðu í dag samning um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks sem koma til landsins í boði ríkisstjórnarinnar á árunum 2014 og 2015 og munu setjast að í Reykjavík. Annars vegar er um að ræða hóp hinsegin fólks, alls fimm einstaklingar, og hins vegar hóp flóttafólks frá Sýrlandi, samtals 13 manns, þar af sex börn. 

Eygló Harðardóttir sagði af þessu tilefni að hún fagnaði samstarfinu við Reykjavíkurborg og ekki síst í ljósi þess að nú væri meðal annars tekið móti fólki sem sætt hefði ofbeldi og ofsóknum vegna kynhneigðar sinnar og taldi hún borgina vel í stakk búna til að takast á við það flókna og mikilvæga verkefni.

Samningurinn sem undirritaður var í dag fjallar um helstu verkefni sem móttaka flóttafólks felur í sér og Reykjavíkurborg mun sjá til að fólkið fái notið. Þessi verkefni varða einkum ýmsa félagslega þjónustu, stuðning og aðstoð en lúta einnig að heilbrigðisþjónustu, grunnskólamenntun og annarri þjónustu sem íbúar sveitarfélaga njóta almennt. Rauði krossinn á Íslandi gegnir einnig hlutverki í móttöku og aðlögun flóttafólks samkvæmt viðmiðunarreglum flóttamannanefndar og hefur ráðuneytið þegar gengið frá samningi við hreyfinguna um móttöku hópanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum