Hoppa yfir valmynd
4. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ný rannsókn á „nægjanleika“ lífeyrissparnaðar

Í dag voru kynntar helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar um hvenær lífeyrissparnaður telst nægilegur til framfærslu. Rannsóknin er hluti af alþjóðlegu verkefni sem gerir, með samræmdri aðferðafræði, samanburð á „nægjanleika“ lífeyris (e. retirement savings adequacy) fólks á aldrinum 35–64 ára sem var á vinnumarkaði árið 2012. Verkefnið var fjármagnað með styrk frá Evrópusambandinu.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar stenst íslenska lífeyriskerfið mjög vel stefnumarkandi tilmæli Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, um uppbyggingu lífeyriskerfa. Stafar það einkum af mikilli sjóðsöfnun, öryggisneti almannatrygginga, sem er mikilvægt fyrir lágtekjuhópa, og því að lífeyrisþegar framtíðarinnar fái almennt meiri lífeyri en nú er greiddur.

Fram kom að u.þ.b. 77% af lífeyrisgreiðslum muni koma úr sjóðum sem hafa safnað eignum til greiðslu lífeyris en í öðrum OECD-ríkjum er hlutfallið á bilinu 5–46%. Hlutur almannatrygginga verður því aðeins 23% á Íslandi. Lífeyrisgreiðslur almannatrygginga eru þó metnar sem mikilvægt öryggisnet fyrir þá sem fá lágar greiðslur úr lífeyrissjóðum, t.d. vegna fjarveru af vinnumarkaði eða lágra launa. Öllum, sem uppfylla skilyrði um 40 ára búsetu á Íslandi, er tryggður lífeyrir vel umfram fátæktarmörk.

Ljóst er að greiðslur lífeyrissjóðanna munu fara hækkandi á komandi áratugum og samanlagður lífeyrir frá sjóðunum og almannatryggingum verður að meðaltali um þriðjungi hærri á komandi áratugum en hjá þeim sem nýlega hófu töku lífeyris. Jafnframt mun hlutur viðbótarlífeyrissparnaðar fara vaxandi.

Ef horft er á útreikning lífeyris sem hlutfall af meðalævitekjum (lífeyrishlutfall) og lokalaunum kemur Ísland mjög vel út úr samanburðinum og er landið í flestum tilvikum ofarlega á lista OECD.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar munu þeir sem hafa verið virkir á vinnumarkaði í 40–45 ár, sem er algengasta lengd starfsævi hér á landi, ná öllum viðmiðum um næganlífeyrissparnað. Aftur á móti er allnokkur hópur fólks sem nær ekki þessum viðmiðum, fyrst og fremst vegna þess að það hefur ekki greitt nægilega lengi í lífeyrissjóð. Þá hefur eldra fólkið, sem könnunin nær til, notið minni ávinnslu réttinda framan af starfsævinni.

Veikleikar íslenska lífeyriskerfisins voru einnig greindir í rannsókninni og þá einkum hvort einhverjir hópar þjóðfélagsins ættu á hættu að lenda undir viðmiðinu um nægan lífeyri. Fjögur atriði eru nefnd sem veikleikar:

  • Lífeyrir er almennt talinn lágur um þessar mundir.
  • Verulegur munur er á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna og fólks á almennum vinnumarkaði, þótt jöfnunaráhrif almannatrygginga dragi nokkuð úr muninum.
  • Sterk tekjutenging er milli almannatrygginga og lífeyristekna.
  • Margir ná ekki viðmiði um 56% lífeyrishlutfall úr samtryggingarsjóðum.

Í skýrslunni er bent á mögulegar úrbætur, svo sem að samræma lífeyriskerfi á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera og að auka sveigjanleika varðandi lífeyristöku og iðgjaldagreiðslur, til þess að fólk geti bætt sér upp lítinn lífeyrissparnað á yngri árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum