Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þingsályktunartillaga um fjölskyldustefnu afhent félags- og húsnæðismálaráðherra

Verkefnisstjórn um mótun fjölskyldustefnu hefur afhent Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, tillögur sínar um stefnu og aðgerðir í málaflokknum til ársins 2020, en mótun stefnu í málefnum barna og fjölskyldna hefur verið meðal forgangsverkefna ráðherra.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var leiðarljós við mótun stefnunnar. Miðað er að því að samningurinn verði innleiddur að fullu og að tekið verði mið af honum við alla ákvarðanatöku og í starfi að málum er varða börn. Meginstef barnasáttmálans, réttindi barna til verndar, umönnunar og þátttöku, endurspeglast í tillögum verkefnisstjórnar að fjölskyldustefnu.

Í tillögunni er sett fram stefna með framkvæmdaáætlun í málefnum fjölskyldunnar sem nær til tímabilsins 2015–2020. Alls eru settar fram 32 aðgerðir sem skipt er upp í sex málasvið. Þau fjalla um afkomu og húsnæði, fjölskyldulöggjöf og skráningu upplýsinga, fræðslu og forvarnir, frístundastarf barna, umönnun og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og velferð barna.

Í tillögum verkefnisstjórnarinnar er m.a. lögð áhersla á aðgerðir í málefnum barna og fjölskyldna sem miða að því að:

  • Tryggja afkomu barna.
  • Tryggja hagsmuni barna.
  • Efla forvarnir og fræðslu.
  • Tryggja aðgengi allra barna að frístundum.
  • Tryggja stuðning við umönnun og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
  • Tryggja velferð barna.

Við mótun fjölskyldustefnunnar var tekið mið af annarri stefnumótun á málasviðinu og forðast að endurtaka það sem þar kemur fram.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum